Grillaðar lambakótelettur

Grillaðar kótelettuSumar-grill-tíminn hafinn í Vatnholtinu og nú með dásemdar lambakótelettum. Einföld uppskrift sem er svo góð að táningurinn umlaði við matarborðið og það gerir hún ekkert endilega þegar kjöt er annars vegar.

Lambakjötið keyptum við beint frá bónda, frístundabónda raunar og fengum það afhent nánast eins og við vildum. Við höfðum reyndar ætlað að fá hrygginn heilann en fyrir mistök þá var hann sneiddur í tvöfaldar grillsneiðar og það kom sér vel í dag.  Ég mæli svo sannarlega með því að kaupa heilan lambaskrokk beint frá bónda – það er alveg sama hvaða bita við höfum eldað af þessu dýri þeir eru allir jafngóðir.  Ég á án efa eftir að kaupa heilan lambaskrokk aftur ef slíkt stendur til boða í haust.

En aftur af uppskriftinni, lamb, sítróna, olífuolía, hvítlaukur og ferskar kryddjurtir – samsetning sem getur vart klikkað. Einfalt, fljótlegt og gott.  Meðlætið var líka einfalt, grillað grænmeti og sósan, létt, holl og góð – uppistaðan grísk jógúrt og heimagert tómatpestó. Það var ekki agnarögn eftir á bakkanum að borðhaldi loknu – það eru meðmæli.

Grill-kótelettur, hráefniUppskrift (fyrir 3) 

  • 6-8 tvöfaldar grill-lambakótelettur, fituröndin skorinn af
  • 4 msk. olífuolía
  • 2 msk. sítrónusafi
  • 2 msk. fersk rósmarín, skorið gróft – nokkrar heilar rósmarínnálar
  • 1 msk. ferskt tímían
  • 1 hvítlauksgeiri – marinn undir hnífsblaði og skorinn mjög smátt og maukaður
  • 1 hvítlauksgeiri – skorinn i þunnar sneiðar
  • salt og nýmalaður pipar

Sósa

  • 6-7 msk. grísk jógúrt
  • 2 msk. pestó með sólþurrkuðum tómötum, sjá uppskrif hér
  • 1 hvítlauksgeiri – maukaður
  • nýmalaður pipar

Byrjið á að útbúa sósuna, með því að hræra öllu vel saman og látið hana standa í um það bil klukkustund, eða á meðan þið útbúið matinn.

GrillkóteletturHreinsið kjötið og skerið fituröndina alveg af því.  Blandið olíu, sítrónusafa, gróft skornum ferskum kryddjurtum, hvítlauksmauki og pipar saman.

Stingið 3-4 stungur í hverja kótilettu og troðið rósmarín-nálum og hvítlauk í hverja stungu. Smyrjið krydd-olíu-blöndunni á sneiðarnar og látið þær standa í 20-30 mínútur að lágmarki, en þær mega líka hvíla mun lengur í kryddblöndunni.

Grillið kjötið á funheitu grilli í nokkrar mínútur á hvorri hlið – saltið kjötið um leið og þið grillið það með góðu sjávarsalti.

Berið fram sósunni og grilluðu grænmeti, t.d. sætar kartöflur í sneiðum, papriku, tómata og sveppi.

Grill-kótelettur

 

 

Þessi færsla var birt í Grillréttir, Kjötréttir og merkt sem , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd