Ein af fyrirmyndum mínum í lífinu er hin lífsglaða og dásamlega kona Hjördís Jóna Geirsdóttir. Allt frá því ég var táningur hefur Dísa átt stóran part í mér. Ég var ásamt svo mörgum heimagangur á heimili Dísu og Tóta. Ég man nú ekki eftir að hafa fengið kleinur með heita kakóinu sem hún beið svo oft með tilbúið fyrir okkur þegar við komum úr skólanum. Ofar í minningunni eru sjónvarpskakan og karmellukakan sem hún var og er fræg fyrir í vinahópnum. Dísa er ein lífsglaðasta kona sem ég þekki, hún talar hátt, syngur eins og engill og hlær svo undir tekur í dalnum eða firðinum. Daglegum verkefnum er ávallt mætt með bros og húmor og söngurinn er aldrei langt undan. Hún stýrir og stjórnar fjöldasöng hvar sem hún kemur því við og telur manni trú um að allir geti sungið eins og englar – líka ég sem er vita laglaus. Við náðum að eiga með henni nokkra daga á ættaróðali fjölskyldu hennar að Víðum í Reykjadal, við gítarspil, söngæfingar, matargerð að ógleymdum hlátrasköllunum sem við sofnuðum við seint á kvöldin og vöknuðum svo við á morgnana. Kleinubaksturinn var festur á mynd og að sjálfsögðu er Dísa óspör á uppskriftina sem hún segir að eigi uppruna sinn á bænum Vogum í Mývatnssveit. Kleinurnar eru hafðar litlar og krúttlegar – þær eru stökkar að utan og mjúkar að innan og ákaflega góðar.
- 5 + 2 bollar hveiti
- 2 bollar sykur
- 100 gr. smjör (eða smjörlíki uppá gamla mátann)
- 2 egg
- 2 tsk. kardimommur
- 7-8 tsk. lyftiduft
- 7-8 dl. súrmjólk
Allt sett í í skál nema 2 bollar hveiti og hnoðað saman – hér er í lagi að nota hrærivélina til að hnoða. Deigið sett á borð og síðustu 2 bollarnir af hveiti eru hnoðaðir upp í höndunum. Skiptið deiginu í hæfilega stóra bita, fletjið út og skerið í tígla.
Skerið gat í miðjuna á hverjum tígli og snúið upp á kleinurnar.
Kleinurnar eru steiktar í feiti, athugið að snúa þeim í feitinni á meðan á steikingu stendur.
Þessar kleinur stoppuðu stutt við, börn, unglingar, kátir vinnukarlar og fallegar konur sáu til þess að þær hurfu eins og dögg fyrir sólu.
Dásamlegar kleinur og góður félagsskapur klikkar ekki.