Ég var ekki alveg búin með rabarbarann í garðinum okkar svo ég ákvað að skella í nokkrar krukkur af sultu. Ekki alveg þessa hefðbundnu rabarabarasultu í þetta sinn heldur bættum við jarðarberjum útí. Sultan er mjög góð með pönnukökum og vöfflum, en líka á ristarbrauðið á morgnana og ýmislegt annað. Svo er líka svo gaman að eiga sultu í fallegri krukku til að færa vinum þegar maður fer í matarboð 🙂 Fallega skreytt sultukrukka er alltaf jafn vinsæl.
Uppskrift
- 1 kg. rabarbari
- 500 gr. jarðarber
- 800 sykur
Rabarbarinn hreinsaður og skorinn í 1 cm bita. Ég notaði frosin jarðarber og geri það oftast þegar ég geri sultu – þessi fersku fara í aðra rétti. Jarðarberin skorin í bita ef þau eru mjög stór – annars er ekki þörf á því. Sett í pott með sykrinum, kveikt undir, hitað rólega og látið malla við vægan hita þar til rabarbarinn og berin eru komin í mauk og sultan er farin að þykkna. Hrærið reglulega í pottinum, einkum er líða fer á suðutímann. Þegar sultan er tilbúin er hún sett í heitar, sótthreinsaðar krukkur og lokað vel.
Það er mjög einfalt að sótthreinsa krukkur – þær eru þvegnar vel og þurrkaðar, settar í 100 gr. heitan ofn í u.þ.b. 10 -15 mínútur.
Bakvísun: Rabarbara- og jarðarberja síróp | Krydd & Krásir