Silungur pakkaður í hráskinku borin fram með bygotto

Stundum er það svo að markmiðin sem maður setur sér taka U beygju um stund og maður neyðist til þess að þjálfa Pollýönnu-vöðvana meira en mann langar. Þessa dagana á það við um mig.  Allt frá því í lok síðasta árs höfum við hjónin ásamt góðum vinum æft úti í náttúrunni með dásamlegum hóp tilvonandi Landvætti undir dyggri stjórn hreinna snillinga þar sem Brynhildur Ólafs og Róbert Marshall fara fremst meðal jafningja. Það er fátt betra þegar erill og krefjandi verkefni eiga hug manns allan við skrifborðið á daginn en að komast út undir bert loft í hvernig veðri sem er á gönguskíða-, hlaupa-, sund- og hjólaæfingar sem reyna svo á að maður fer langt út fyrir þægindarammann sem stækkar  til muna með hverri æfingu.  Á einni aukaæfingu í síðustu viku missteig ég mig ílla og eftir nokkurra daga afneitun, eina hjólaæfingu og eina sundæfingu dröslaðist ég til að láta mynda bláan og bólginn hægri fót minn sem ég var sannfærð um að  væri bara ílla tognaður en reyndist ökklabrotinn. Það verður því ekki í ár sem ég næ titlinum Landvættur, en 2020 er líka hrikarlega smart tala.  Ég mun mæta galvösk á æfingar um leið og beinið er gróið og stefni ótrauð á að verða Landvættur 2020.  En í ár mun ég mæta á allar keppnirnar sem framundan eru, vera með kalda kampavín við marklínuna, hvetja, styðja og knúsa mitt fólk og allar hinar hetjurnar sem ljúka þessu í ár.  En aftur að Pollýönnu-vöðva-æfingunum.  Á meðan ég má ekki einu sinni tilla í fótinn (sem vonandi varir einungis í eina viku) hefur mér tekist að einbeita mér meira en ella að krefjandi vinnutengdu verkefni, loksins lokið við undurfagurt ungbarnateppi og silkihúfu á tilvonandi dótturdóttur sem á að koma í heiminn eftir um það bil 3-4 vikur og loksins gefið mér tíma til að ljúka við færslu á þessum dásemdarvef mínum sem hefur lítið verið sinnt síðustu rúmu 2 árin vegna anna við önnur krefjandi verkefni.  Ég á efni í margar færslur á tölvunni minni, myndir og minnispunkta sem þarf bara að vinna úr. Segið svo að það sé ekki unnt að nýta meira að segja beinbrot til einhvers……  í það minnsta er þessi mjög svo góða uppskrift komin í loftið, temmilega fyrir veiðitímabilið sem nú er hafið – Njótið og verði ykkur að góðu.

Uppskrift 

  • 800 gr. silgungsflök
  • 4 sneiðar hráskinka
  • 8 væn blöð af ferskri salvíu
  • Salt og pipar
  • Olía og smjör til að steikja upp úr

Skerið fiskinn í 4 góða bita, kryddið með salti og pipar.

Setjið tvo salvíublöð og hvern bita og vefjið hráskinkusneið utan um.

Gott er að byrja á byggottóinu á þessu stigi – geyma fiskinn innpakkaðan á meðan og steikja hann svo um það leyti sem byggið er um það bil tilbúið.

Bræðið þá smjör og olíu á pönnu og steikið fiskinn við fremur háann hita í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

Byggottó

  • 3 dl. perlubygg
  • 1 l gott grænmetissoð
  • 1 dl. hvítvín (má sleppa)
  • 50 gr. smjör
  • 2 skalottlaukur, saxaður smátt (má líka nota 1 venjulegan lauk)
  • 2 hvítlauksgeirar, marðir í mauk
  • 2 gulrætur, hreinsaðar og skornar í litla teninga
  • ½ sítróna, safin og rifinn börkur
  • 50 gr. parmesan ostur, rifinn
  • 1 dl. rjómi
  • Salt og pipar

Setjið vatn og grænmetiskraft í pott og hitið að suðu.

Bræðið smjör í potti og steikið lauk og gulrætur við lágan hita í 5-7 mínútur.  Hækkið hitann, bætið hvítlauk í pottinn og síðan perlubygginu og steikið í 1-2 mínútur eða þar til byggið hefur dregið svo til alla fituna í sig.  Hellið hvítvíni út í pottinn og hrærið saman þar til vínið er að mestu gufað upp.  Bætið heitu grænmetissoðinu út í pottinn smátt og smátt, einni ausu í senn og látið byggið draga í sig vökvann áður en næsta ausa er sett í pottinn, það tekur um það bil 20 mínútur að elda byggið og þarf að standa yfir pottinum allan tímann. Að lokum er rifnum parmesan osti, rifnum berki og safa úr ½  sítrónu ásamt rjóma hrært út í, slökkvið undir pottinum, setjið þétt lok á og leyfið bygginu að hvíla í nokkrar mínútur áður en þið berið réttinn fram.

Þessi færsla var birt í Fiskur og sjávarfang, Meðlæti og merkt sem , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd