Ég er ein þeirra sem enn baka smákökur fyrir jólin, um það bil sjö sortir og hef svei mér þá stundum veigrað mér við að segja frá því, það þykir nefninlega ekkert ýkja smart að baka sjö sortir. Sortirnar sjö eru ekki vegna þess að sjö sé heilög tala eða að mér finnist ég knúin til þess að baka sjö sortir, heldur einungis vegna þess hve gaman ég hef af eldhússtússi. Svo er líka svo óendanlega þakklátt að gleðja þá sem manni þykir vænst um á aðventunni – fá aðstoð við baksturinn frá lítilli frænku á sunnudegi, gleðja dætur, eiginmann, bræður, frænku, frænda, vini, vinkonur, tengdason og tengdamóður með góðu heimagerðu bakkelsi og góðu kaffi eða heitu kakó. Já aðventan er tími til að gleðja og njóta.
Þetta er þær kökur sem á síðustu árum hafa verið bakaðar fyrst á okkar heimili – hæfilega sætar, mjúkar og ákaflega góðar. Ég frysti þær í passlega stórum skömmtum og tek upp jafn óðum, þannig haldast þær eins og nýbakaðar alla aðventuna.
Uppskrift
- 250 gr. rjómaostur
- 200 gr. smjör
- 1/2 bolli sykur
- 1/2 bolli púðursykur
- 1 egg
- 1 tsk. vanilludropar
- 2 1/2 bolli hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- 1/2 tsk. salt
- 1/2 bolli valhnetur saxaðar
- 1 bolli döðlur skornar í bita
- 150 gr. suðusúkkulaði saxað
Hrærið saman rjómaosti, smjöri og sykri þar til blandan verður létt og ljós. Bætið eggi og vanillu saman við. Blandið þurrefnum út í og síðan hnetum, döðlum og súkkulaði.
Setjið með teskeið (eða lítilli ísskeið) á pappírsklædda bökunarplötu. Bakið við 200 C í 12 – 17 mínútur.
Geymið í vel lokuðu íláti á köldum stað eða í frysti. Uppskriftin er frekar stór um það bil 60 – 80 kökur eftir stærð.