Grafið hross hljómar ekki ákaflega girnilegt hvað þá jólalegt, en staldrið aðeins við og lesið áfram. Grafið hross er nefnilega stórkostlega gott. Aðferðin við að grafa kjöt virkar ef til vill flókin og svolítið eins og alls ekki á allra færi. Raunin er hins vegar allt önnur, þetta er nefninlega sáraeinfalt. Hugmyndin af grafna hrossinu er fengin úr frábærri bók eftir þau heiðurshjón Ingu Elsu og Gísla Egil – Góður matur – gott líf, sem var gefin út fyrir jólin 2011. Ég hafði oft smakkað grafið kjöt, aðallega þó grafna gæsabringu, en þar sem ég er ekki enn farin að stunda skotveiðar sjálf, þá greip ég þessa hugmynd á lofti – það er að grafa hrossa- eða ærkjöt. Lund af hrossi eða ær er frekar gróft en ákaflega meyrt kjöt, þroskað og bragðmikið. Meðhöndlað á þennan hátt er það algert sælgæti sem á vel við á aðventu, þegar við hóum saman bestu vinum okkar, fjölskyldu og þeim sem okkur þykir vænst um og gerum okkur glaðan dag – dag sem við viljum gera eftirminnilega fyrir margra hluta sakir. Þá er gaman að bera fram óvenjulegar og eftirminnilegar veitingar. Þar kemur grafið hross sterkt inn. Gott í salat, á brauðsnittur eða eitt og sér á smáréttarbakka. Athugið að uppskriftin er frekar stór, það er lítið mál að minnka hana og enn minna mál að skipta kryddtegundum út fyrir aðrar allt eftir smekk og aðstæðum.
Uppskrift
- 700 gr. hrossafillet
- 6 msk. gróft gott salt
- 2 msk. sinnepsfræ
- 2 msk. fennelfræ
- 2 msk. kóraíanderfræ
- 3 tsk. rósapipar
- 2 tsk. svartur pipar
- 2 msk. oreganó
- 2 tsk. rósmarín
- 2 tsk. temían og/eða íslenskt blóðberg
- 1 tsk. hrásykur
Snyrtið kjötið eða fáið kjötkaupmanninn til að gera það 🙂
Dreifið grófu og góðu salti vel yfir kjötið – það verður að þekja vel í saltinu. Geymið í kæli í 2 – 3 klst. Skolið þá saltið af kjötinu og þerrið vel með hreinum klút.
Blandið kryddfræjunum og piparkornum saman í mortéli og steytið gróflega, gætið þess að kryddin verði áfram heldur gróf og alls ekki að dufti. Blandið sykri og afganginum að kryddunum saman við – í þetta sinn átti ég þurrkað íslenskt, litríkt og fallegt blóberg sem ég bætti við blönduna. Týndi það í sumar og þurrkaði, svona líka fallega fjólublátt og blómstrandi.
Þekið kjötið með kryddblöndunni, pakkið vel og þétt inn í eldhúsfilmu. Geymið í kæli í að lágmarki sólarhring áður en borið er fram.
Kjötið geymist í um það bil 5 – 7 daga í kæli – en það má jafnframt vacumpakka því og frysta í smærri skömtum, þannig getur það geymst í nokkra mánuði.
Kjötið er eins og áður segir gott i salat, sem forréttir með góðri vinagrette, með góðu brauði, ristuðum hnetum og fræjum, á smáréttarbakka – möguleikarnir eru endalausir.