Franskar Magdalenukökur (Madeleines) eru litlar skeljalaga kökur – bakaðar í frönskum skeljalaga-formum. Uppistaðan í kökunum eru egg, sykur, brætt smjör og hveiti – deigið er síðan bragðbætt með ýmsu móti, oftast með sítrónusafa eða sítrónuberki. En í þessum er kókos en engin sítróna. Þetta eru einfaldar kökur, kannski ekkert ósvipaðar og gömlu góðu formkökurnar okkar, ekki afgerandi bragðmiklar en fínlegar og ákaflega góðar með kaffi eða te. Þegar ég fletti upp í alfræðibókinni um mat og matargerð – Matarást Nönnu Rögnvaldar fékk ég þær upplýsingar að heimildum bæri ekki saman um hvaðan þær eru komnar eða hvenær þær voru fyrst búnar til. Þó eru heimildir sem tengja þær bænum Commercy í Lorraine. Þessi uppskrift er byggð á uppskrift úr bókinni trEATs eftir April Cater en hún er breskur matarbloggari sem heldur úti blogginu http://www.rhubarbandrose.co.uk
Það er ákaflega skemmtilegt að baka þegar áhugasamur aðstoðarbakari tekur þátt. Í þetta sinn var systurdóttir tengdasonar míns í heimsókn og hún naut sín mjög. Sérlega spurul, greind og ákaflega skemmtileg stúlka sem kom með hvert gullkornið á fætur öðru á meðan á bakstrinum stóð – vá hvað hveitið er mjúkt en ekki sykurinn – já það er dásamlegt að uppgötva reynsluheim fjögurra ára bakara. Sú stutta var mjög stolt þegar kökurnar komu úr ofninum, gat vart beðið eftir að þær kólnuðu, fannst Magdalenukökurnar bæði fallegar og góðar – þar vorum við sammála 🙂
- 3 egg
- 120 gr. sykur
- 150 gr. smjör, brætt og kælt
- 5 msk. mjólk
- 150 gr. hveiti
- 1/2 tsk. lyftiduft
- 100 gr. kókosmjöl fínt
- flórsykur til að sigta yfir kökurnar eftir að þær eru bakaðar
Hrærið egg og sykur mjög vel, eða þar til blandan er ljós og létt – þetta tekur u.þ.b. 3-4 mínútur í hrærivél. Bætið brættu og kældu smjöri og mjólk saman við og hrærið vel. Sigtið hveitið og lyftiduftið saman og bætið hveitiblöndunni ásamt kókosmjölinu saman við eggja- og smjörblönduna. Nú er gott að leyfa deiginu að hvíla í kæli í u.þ.b. 20 mínútur áður en blandan er sett í formin. Með þessu móti lyfta kökurnar sér betur þegar þær voru bakaðar.
Úr deiginu fást 24 Magdalenu-kökur að hefðbundinni stærð. Formið telur yfirleitt 12 kökur svo deigið er í tvö form. Formin eru smurð vel – og fyllt að 2/3 hluta með deiginu. Bakað við 170°C í 8-10 mínútur.
Formin eru fljót að kólna svo þegar fyrstu 12 kökurnar eru bakaðar er þær látnar kólna í nokkrar mínútur í forminu áður en þær eru teknar úr því og settar á grind þar sem þær ná að kólna alveg áður en flórsykur er sigtaður yfir þær. Formið þrifið, smurt vel og fyllt aftur fyrir seinni 12 kökurnar.
Þessar kökur eru bestar nýbakaðar með kaffi eða te. Þær geymast í 2-3 daga og ég get staðfest að þær eru mjög góðar daginn eftir 🙂 Deigið er líka unnt að útbúa daginn áður en kökurnar eru bakaðar, deigið er þá geymt í kæli.
Úúú…. glæslegar ! eru þær svona fallegar báðumegin ?
Þær eru fallegar báðum megin en ekki með skeljamunstrið nema á annarri hliðinni 🙂