Balti kjúklingur í kókos- og möndlusósu

img_8171Löng þögn á þessum miðli er ekki merki um það að ég sé hætt að elda, þó ég hafi ef til vill gert heldur minna af því síðustu vikur en oft áður. Nýtt skemmtilegt og annasamt starf, framkvæmdir í sumarhúsalandi okkar hjóna, dásamleg dótturdóttir og ýmislegt fleira skemmtilegt hefur hins vegar átt hug minn allan og tíminn sem fer í að blogga hefur því átt undir högg að sækja.  Ég hef reyndar íhugað mjög hvort ég ætti að hætta, en eitt af markmiðum mínum í ár var að einfalda líf mitt – sem getur verið svolítið flókið þegar kona á mörg áhugamál og finnst lífið bæði spennandi og skemmtilegt. Ég á líka mjög einlægan aðdáanda í yngri dóttur minni sem finnst það fráleit hugmynd að  ég sleppi því að blogga, svo ég hef tekið ákvörðun um að halda þessu eitthvað áfram. Matreiðsla hefur verið ástríða mín frá unga aldri, ég á mínar fyrstu minningar við eldavélina einungis 5 ára gömul. Elstu uppskriftirnar mínar eru líklega frá því ég var 11-12 ára gömul og páraði niður kökuuppskriftir um leið og ég safnaði servéttum og glansmyndum. Þetta er sumsé áhugamál mitt frá unga aldri – ég hef enga formlega menntun í matreiðslu þó ég hafi sótt nokkur stutt námskeið sem ætluð eru áhugafólki og eigi orðið dágott safn bóka, reyndar svo margar að fjölskyldunni finnst nóg um 🙂  Ég er því típískur amatör með ástríðu – einskonar hallæris nörd – og mun líklega seint að takast að einfalda líf mitt!

En að fyrstu uppskriftinni eftir þessa löngu pásu – Indverskur Balti kjúklingur, ljúfur, ilmandi og dásamlegur. Á uppruna sinn í eldgamalli og hálfhallærislegri indverskri matreiðslubók sem er í safninu mínu.

img_8104Uppskrift

 • 5 msk. möndlur – malaðar
 • 1 msk. kókos
 • 1 lítil dós kókosmjólk (150 ml.)
 • 175 gr. ricotta ostur eða kotasæla
 • 1 1/2 tsk. kóríanderfræ – steytt eða duft
 • 1/2 tsk. chili duft
 • 1 1/2 tsk. fersk rifin engiferrót
 • 2 hvítlauksgeirar marðir
 • 1 tsk. salt
 • 1 msk. olía
 • 300 gr. úrbeinað og skinnlaust kjúklingakjöt, t.d. læri
 • 3 grænar kardimommur
 • 1 lárviðarlauf
 • nokkrir stilkar ferskt steinselja eða kóríander, smátt saxað

balti-kjuklingur-mondlurMalið möndlurnar og blandið kókos saman við. Ristið á þurri heitri pönnu, gætið þess að hræra stöðugt í blöndunni þar til hún fer að taka lit og ilma stórkostlega.  Setjið ristaða möndlu- og kókosblönduna í skál.

balti-kjuklingur-1Bætið kókosmjólk, kotasælu eða ricotta osti, steyttum kórínderfræjum, chilidufti, engiferrót, hvítlauksmauki og salti saman við og blandið vel saman.

balti-kjuklingur-2Skerið kjúklinginn í hæfilega bunnbita. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklingabitana, kardimommubelgina og lárviðarlaufið við háan hita í nokkrar mínútur.  Hellið kókos- og möndlumaukinu saman við og hrærið vel.  Látið malla við lágan hita í u.þ.b. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Veiðið lárviðarlaufið og kardimommubelgina úr og stráið saxaðri steinselju eða kóríander yfir réttinn áður en hann er borin á borð.  Gott er að hafa basmati hrísgrjón, t.d. safran grjón og nan brauð sem meðlæti.

Þessi færsla var birt í Indverskir réttir, Kjötréttir og merkt sem , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s