Dásamlegt sumar rétt rífleg hálfnað, sumar sem hefur liðið ákaflega hratt við skemmtileg ævintýri. Því þrátt fyrir að það hafi ekki verið mikið að gerast á þessari síðu í sumar þá verður hið sama ekki sagt um líf Vatnsholtsgengisins. Það er uppfullt af skemmtilegum verkefnum og uppákomum með dásamlegu fólki. Svei mér ef þetta er ekki fyrsta helgin síðan í maí sem við erum heima hjá okkur. Matreiðsla okkar í kvöld varð að hæfa 11 mánaða gullmola jafnvel og okkur sem eldri eru. Sú yngsta borðaði svo vel að ég hafði vart undan að skera kartöflur og kjúkling í litla bita fyrir hana og um tíma stóð mér vart á sama hve mikið hún borðaði og velti fyrir mér hvernig þessi litli kroppur kæmi þessu öllu fyrir – en auðvitað kunni hún sitt magamál og gaf sjálf til kynna hvenær hún hafði borðað nægju sína. Aðrir fjölskyldumeðlimir voru jafnánægðir og sú stutta og því um sannkallaðan fjölskyldurétt að ræða, rétt sem í raun krefst lítillar fyrirhafnar – allt í einum potti, einfalt og gott.
Uppskrift
- 1 kjúklingur
- 2-3 msk. eðal kjúklingakrydd
- 1 bolli bankabygg
- 3 bollar gott kjúklingasoð
- 1 heill hvítlaukur
- nokkrir góðir stilkar af fersku tímían (eða 1 msk. þurrkað)
- nokkrir góðir stilkar af ferski oreganó (eða 1 msk. þurrkað)
- 1 sæt kartafla, afhýdd og skorinn í hæfilega bita (munnbita-stærð)
Kryddið kjúklinginn með góðu kjúklingakryddi, sjálf nota ég alltaf eðal kjúklingakryddið frá Pottagöldrum.
Setjið bankabygg í botninn á ofnpotti, hellið góðu kjúklingasoði yfir. Merjið hvítlauksgeirana undir hnífsblaði og afhýðið þá. Setjið 2 – 3 geira inn í kjúklinginn er restina með bankabygginu í ofnpottinn.
Setjið kjúklinginn ofan á bankabyggið. Saxið oreganó gróft og takið tímían blöðin af stilkunum, stráið yfir kjúklinginn og bankabyggið.
Bakið við 180°C í 40 mínútur.
Takið pottinn úr ofninum, bætið sætu kartöflunum út í pottinn og bakið áfram undir loki í 15 mínútur. Takið þá lokið af pottinum, hrærið aðeins í bygginu og kartöflunum, hækkið hitann í 200°C og bakið áfram í 10 mínútur með ofnpottinn opinn til að fá stökka pöru á kjúklinginn.
Berið fram með grænu salati ef vill – en rétturinn stendur vel fyrir sínu einn og sér.