Já já – Gleðilegt árið kæru vinir og velunnarar þessarar síðu. Það hefur verið fremur rólegt á þessum miðli, raunar svo rólegt að stundum roðna ég við tilhugsunina. Það eru margar færslur á vinnslustigi, sem stefnt er að ljúka á næstu dögum og vikum. En hér er ein góð brauðbollu-uppskrift sem Vatnholtsgengið naut þess að snæða sl. sunnudag með dásamlegri gúllassúpu, sem ég er að vinna að færslu um. Bollur þessar eru ákaflega bragðgóðar og passa vel með góðum súpum eða pottréttum, nú eða bara á morgunverðar- og árdegisverðarborðið með góðu áleggi.
Uppskrift
- 4 dl. mjólk
- 1 bréf þurrger (12 gr.)
- 1 tsk. hunang
- 200 gr. kotasæla
- 1/2 dl. olía
- 10 dl. brauðhveiti + 1-2 dl til að hnoða upp í deigið eftir hefun
- væn lúka af ferskum kryddjurtum, t.d. oreganó, tímían, rósmarín og basilika, saxað gróft
- 1 tsk. salt
Velgið mjólkina í u.þ.b. 37° C, hærið hunangið út í og leysið gerið upp í blöndunni. Látið standa í 5-7 mín. eða þar til blandan fer að freyða. Hrærið þá olíu og kotasælu út í. Bætið hveitinu, kryddjurtunum og saltinu saman við og hnoðið vel saman, deigið er fremur blautt.
Leyfið deiginu að lyfta sér í a.m.k. klukkustund eða þar til það hefur tvöfaldað stærð sína. Best er að hafa deigið á fremur heitum stað (t.d. með því að setja skálina yfir ílát með heitu vatni í, en gætið þess að skálin standi ekki ofan í vatninu).
Hnoðið smávegis af hveiti saman við deigið, eða þar til þið getið rúllað því í góða svera „pulsu“, skerið í fremur þykkar sneiðar og mótið góðar bollur úr hverri sneið af deiginu.
Setjið bollurnar á bökunarplötu, penslið með mjólk og látið hefast í u.þ.b. 15 mín.
Bakið við 220° C í 10 – 15 mínútur.
Spennandi, ætla að prófa um helgina. Hvað koma ca margar bollur úr svona uppskrift?
Þær urðu ca 20 stk vænar bollur – það ma alveg frysta þær og hita eftir þörfum 😀 þá verða þær eins og nýbakaðar
Bakvísun: Gúllassúpa | Krydd & Krásir