Þegar ég segi að eitthvað sé einfalt í matargerð þá er stundum hlegið að mér, ég reyni að taka það ekki mjög nærri mér, en núna má sko hlægja. Það er nefninlega hlægilega einfalt að gera sína eigin vanilludropa og það er um það bil þúsund sinnum betra að nota heimagerða vanilludropa í bakstur og aðra matargerð sem kallar á slíka dropa, en keypta dropa frá ónefndu íslensku átöppunarfyrirtæki. Svo er líka fáránlega smart að gefa heimagerða dropa í fallegu glasi með einföldu skrauti í jólagjöf, nú eða mæta með slíka flösku í matarboð til góðra vina í staðinn fyrir blómvönd eða bara með blómvendinum.
Litlar fallegar glerflöskur, búsnar vanillustangir, góður vodki og tími er það eina sem þarf – það er tími fyrir dropana til að marenerast vel og taka gott bragð af vanillunni. Leikur einn 🙂
- 6 vanillustangir
- 3-4 dl. vodki
Sótthreinsið* fallegar flöskur – ég notaði 3 flöskur sem hver tekur um 1,2 dl. en nota má bæði minni og stærri flöskur og aðlaga magnið að stærðinni á flöskunum.
Kljúfið vanillustangirnar og skerið þær í tvennt ef flöskurnar eru ekki þeim mun hærri, mikilvægt er að vodkinn fljóti yfir stangirnar í flöskunum. Stingið 2 vanillustöngum í hverja flösku og hellið vodka þannig að hann fljóti vel yfir stangirnar.
Fljótlega fer vanillan að lita vökvann og strax á 2. degi má sjá hvernig vökvinn tekur á sig gullinbrúnan lit. Smátt og smátt verður vökinn dekkri og eftir u.þ.b. 3 vikur er vanilludroparnir tilbúnir til notkunar. Sjálf fylli ég vodka reglulega á flöskuna án þess að taka upphaflegu stangirnar úr henni, bæti líka vanillu við þegar ég er t.d. að búa til jólaísinn og þarf bara vanillukornin út stönginni – þá sting ég henni út í flöskuna og á þannig alltaf góða vellyktandi vanilludropa – þá bestu sem ég hef nokkurn tíma átt.
Smart jólagjöf fyrir matgæðinga 🙂
Hvar færdu svona litlar og fínar flöskur. p.s Viss um ad thetta sé yndislegt eins og allt sem ég hef prufad frá ther. Uppáhaldid er risotto med tómatblöndinni slær alltaf í gegn.
Sæl kæra Sigrún og astarþakkir fyrir hlý orð sem sannarlega eru hvatning til að halda áfram 😊 þessar flöskur eru reyndar ekki keyptar tómar úti í búð, heldur innihéldu áður jarðarberjasíróp sem vinkona mín notar mikið á veitingastað sínum og ég fékk að taka til handagagns. En það eru til litlar sætar flöskur í Sostrene Grene
Bakvísun: Létt og gómsæt birkifræ- og sítrónukaka | Krydd & Krásir