Kraftmikil, heit og hreint dásamleg eru réttu lýsingaorðin yfir þennan rétt sem nánast sér um sig sjálfur – tja eða svo gott sem. Þetta er réttur sem ég upphaflega fann í eld-, eldgömlum Gestgjafa fyrir mörgum árum og ég hef eldað reglulega síðan, en hefur að sjálfsögðu breyst og þróast í gegnum árin. Nú var komið að því að aga eldamennskuna, mæla, skrá og mynda og færa svo yfir á þennan miðil – enda nokkrir sem hafa beðið eftir því að geta nálgast þessa uppskrift. Ungverska paprikukryddið er bragðmikið og svolítið sterkt, gefur súpunni töluvert bit – sem er svo gott á köldum vetrarkvöldum. Þetta er upplagður réttur til að elda fyrir stóran hóp matargesta. Þessi réttur hentar vel t.d. þegar haldið er í fjallgöngu eða skíðaferð, þá er um að gera að græja og gera áður en lagt er í hann, fullelda réttinn, kæla vel og hita svo upp þegar komið er heim nú eða taka með á staðinn og hita á prímus úti eftir góðan dag á fjöllum. Með súpunni er fátt betra en góðar heimabakaðar bollur t.d. þessar hér.
- 1200 gr. nautagúllas
- 1 stór eða 2 minni laukar
- 1 rauð paprika
- 1 græn paprika
- 600-700 gr.kartöflur
- 3 gulrætur
- 2 msk. broddkúmen*
- 2 msk. ungversk paprika (ef ekki til notið þá venjulegt paprikukrydd og örlítið af chili)
- 2 vænar greinar ferskt rósmarín (eða 2 msk. þurrkað)
- 3-4 msk. ferskt oreganó (eða 2-3 tsk. þurrkað)
- pipar og salt
- 2 hvítlauksgeirar
- 150 gr. rjómaostur
- 1 dós niðursoðnir tómatar
- 3 msk. tómatpúrra
- 1/2 l. sterkt og gott nautasoð (kraftur og vatn)
Skerið lauk og paprikur fremur gróft. Flysjið kartöflurnar og gulrætur og skerið í hæfilega munnbita. Saxið ferska kryddið, en geymið aðra rósmarín greinina þar til rétturinn er borinn fram. Setjið í stóran leir- eða pottjárnspott og kryddið með öllu kryddinu. Veltið aðeins til í pottinum svo kryddið nái til allra bitanna.
Setjið hvítlauksgeira, rjómaost, niðursoðna tómata, tómatpúrru og hluta af nautasoðinu í blandara og maukið vel saman. Hellið maukinu og afgangnum af soðinu yfir kjötið og grænmetið. Setjið þétt lok á potinn og bakið í ofni við 180°C í 2 til 2,5 klst.
Leggið fersku rósmarín greinina sem þið geymduð ofan á súpuna áður en hún er borinn fram.
Berið fram með góðum brauðbollum t.d. þessum hér.
* Best er að nota heil fræ, þurrista þau á heitri pönnu og steyta í mortéli.