Steiktur sítrónu kjúklingur

SítrónukjúklingurÍ morgun vöknuðum við upp við hvíta jörð, hitastig við frostmark og ansi hressilegt rok  barði rúðurnar. Það er fyrsti dagur sumars samkvæmt dagatalinu og það ku víst vita á gott ef vetur og sumar frýs saman, því ætla ég að trúa. Við fögnuðum þessum fyrsta degi sumars með ansi sumarlegum rétti – dásamlegur kjúklingur, kryddaður með sítrónu, fersku sítrónutímían, smjöri, hvítlauk og hráskinku og munum án nokkurs vafa elda þennan rétt aftur áður en sumarið er allt. Þessi réttur var oft á borðum hjá okkur fyrir margt löngu en ég hef ekki eldað hann í nokkur ár held ég svei mér þá. Hugmyndin er frá vini okkar Jamie Oliver, úr einni af fyrstu bókum hans. Sú bók er ansi snjáð og lúin í matreiðslu-bókahillunni minni – var mikið notuð áður fyrr en bæst hefur hressilega í safnið á síðustu árum svo þessi ágæta bók hefur lítið verið brúkuð um nokkurt skeið.  Uppskriftin hefur að sjálfsögðu þróast og breyst í meðförum mínum á umliðnum árum og er alveg hreint dásamleg eins og áður hefur komið fram.

Hráefni_sítrónukjúklingurUppskrift (fyrir 4-5)  

  • 1 kjúklingur (ca 1,3  – 1,5 kg.)
  • 1 sítróna (lífræn því við notum börkinn 😉
  • 4-5 sneiðar hráskinka (stærri gerðin, annars fleiri)
  • 3-4 msk. ferskt sítrónu-timían (má nota venjulegt)
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 75 gr. smjör (verður að vera við stofuhita)
  • 2 msk. ólifuolía
  • 1 dl. hvítvín (eða vatn)
  • 7-800 gr. kartöflur
  • Salt og pipar

Hitið ofninn í 220°C

Best er að kjúklingurinn sé við stofuhita, skolið hann vel undir rennandi vatni og þerrið. Losið haminn frá frá kjötinu varlega með sleif eða fingrunum,  gætið þess að rífa haminn ekki.

SítrónukjúlliSkerið hráskinkuna í smáa bita, rífið börkinn af sítrónunni með rifjárni, bara gula hlutann. Blandið saman við smjörið, ásamt fínt söxuðu sítrónu-timían og pressuðum hvítlauk.  Kryddið með salti og pipar og hrærið smjörblönduna vel saman. sítrónukjúlli_2Troðið blöndunni undir haminn og strjúkið þannig að hún dreifist nokkuð jafnt og þeki nánast allan kjúklinginn.  Skiljið ca. 1 msk. eftir af smjörblöndunni, hrærið olífuolíu saman við og nuddið kjúklinginn með olífuolíublöndunni, kryddið með pipar og salti.  Skerið sítrónuna í tvennt og setjið hana inn í kjúklinginn.

Setjið kjúklinginn í eldfast mót og krækið leggjunum saman svo fyllingin leki síður úr honum.  Setjið 1 dl. af hvítvíni eða vatni í fatið. Kartöflurnar eru ekki settar í fatið á þessu stigi.  Steikið kjúklinginn í ofninum við 220°C í 20 mínútur.  Skrælið kartöflurnar og skerið í báta, nema ef þegar þið eigið nýuppteknar þá mega þær að sjálfsögðu fara með hýðinu.

sítrónukjúlli_3Takið kjúklinginn úr ofninum.  Smjörið er nú bráðið og hefur blandast hvítvíninu.  Lyftið kjúklingnum upp, setjið kartöflurnar í fatið og veltið þeim upp úr hvítvínssmjörinu.  Setjið kjúklinginn aftur ofan á kartöflurnar og steikið í ofninum í 40 – 50 mínútur.  Soðið sem myndast í fatinu er góð sósa og í raun þarf lítið að gera við það annað en að setja það í sósuskál og bera fram með, nema fyrir allra harðasta sósufólk, þá má sjóða það aðeins niður, bæta smá hvítvíni út í og þykkja með sósujafnara ef þið viljið.

Berið fram með góðu grænu salati.

IMG_9921

p.s. það er ekkert betra, fallegra eða ljúfara en að hafa áhugasaman 1,5 árs aðstoðarkokk í eldhúsinu – sú stutta vill helst fá að sitja upp á eldhúsbekknum og taka þátt í matseldinni. Líklega bragðast maturinn betur með því móti, að minnsta kosti borðar sú stutta aldrei betur en eftir að hafa fengið að taka virkan þátt.
Þessi færsla var birt í Kjötréttir og merkt sem , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s