Bakstur þessara helgar er gerður í flýti heima hjá Vatnsholtsgenginu sem ætlar að bruna í gamla kotið sem í gær var loks flutt á sinn rétta stað. Ársundirbúningi lauk þar með og við tekur vinna við að gera þetta litla, gamla og fremur ljóta hús að nokkurs konar sumarhöll. Fyrir nokkrum árum áskotnaðist okkur nefninlega dágóður landskiki í einstaklega fallegu landi mjög góðra vinahjóna okkar og fyrir ári síðan keyptum við gamalt sumarhús til flutnings. Við tók vinna við vegagerð, vatnsleit, uppteypu á grunni undir húsið og fleira skemmtilegt og hefur sú vinna tekið rétt tæpt ár. í gær var húsið loks flutt á sinn stað af slíkum fagmönnum að ég efaðist ekki eitt augnablik um að þetta myndi takast en aðstæður voru um tíma bæði erfiðar og tvísýnar. Áræðni, fagmennska og mikill vilji allra sem að komu gerðu það að verkum að húsið hvílir nú á þessum líka fallega stað og Vatnsholtsgengið getur vart beðið eftir fyrstu gestunum. Þess vegna bakaði ég þessa nýju útgáfu af sítrónuköku til að taka með okkur. Hugmyndin er frá hinni hollensku Yvette Van Boven sem ég hef nokkrum sinnum áður minst á – hún gefur út snilldarbækur og átti um tíma einn besta veitingastaðinn í Amsterdam – pínulítill staður með hreint afbragðsmat, sem því miður er búið að loka. En Yvette heldur áfram að elda og er víst orðin einn þekktasti sjónvarpskokkur hollendinga auk þess að skrifa bækur og greinar sem birtar eru um víða veröld.
Uppskrift
- 200 gr. smjör (við stofuhita)
- 150 gr. púðusykur
- 2 egg
- 1 tsk vanilludropar (heimagerðir eru bestir, uppskrift hér)
- 2 sítrónur, bæði safi og fínt rifinn börkurinn – bara ysta lagið
- 2 tsk. birkifræ
- 200 gr. hveiti
- 1,5 tsk. lyftiduft
- 4 eggjahvítur
- örlítið salt
Glassúr
- 160 – 200 gr flórsykur
- 2 – 3 msk. ferskur sítrónusafi
Hitið ofninn í 180°C.
Kakan er bökuð í 22 cm smelluformi, gott er að setja bökunarpappír í botn þess og smyrja hliðarnar vel með smjöri.
Hrærið smjör og púðusykur mjög vel eða þar til blandan er létt og ljós. Hrærði eggjunum saman við einu í einu.
Bætið vanilludropum, fínt rifnum sítrónuberki og sítrónusafa ásamt birkifræjum saman við blönduna og hrærið vel saman.
Sigtið hveit og lyftiduft út í deigið og hrærið saman.
Stífþeytið eggjahvíturnar með örlitlu salti og blandið varlega saman þannið að deigð verði loftimikið og létt.
Hellið í velsmurt smelluform og bakið við 180°C í 35 mínútur eða þar til prón sem stungið er í miðju kökunnar kemur hreinn út.
Kælið í 5 mínútur áður en þið takið kökuna úr forminu.
Útbúið glassúr, með því að hræra saman sítrónusafa og sigtuðum flórsykri og hellið yfir kökuna þegar hún hefur kólnað.