Ítalskur og eins og svo margt sem þaðan kemur er þessi eftirréttur hreint dásamlegur – raunar einn af mínum uppáhalds. Það var raunar töluvert langt síðan ég útbjó þennan eftirrétt þegar ég fann í tiltekt uppskriftina á gömlum, snjáðum og kámugum pappírsbleðli. Ég ákvað samstundis að þörf væri á að rifja þessi gömlu kynni upp og var raunar aðeins nerfus um hvort rétturinn stæði undir væntingum. Það voru svo sannarlega óþarfa áhyggjur, minningar mínar um bragðgæðin voru alveg réttar. Ég ákvað því að koma uppskriftinni hér inn og henda þessum skítuga, íllafarna pappírsbleðli um leið – nú verður auðveldara fyrir fölskylduna að nálgast uppskriftina. Verði ykkur að góðu 🙂
Uppskrift
- 2 dl. sterkt expressó kaffi
- 2 msk. marsala vín, eða Vin Santo, eða Amaretto (má sleppa)
- 4 egg
- 75 gr. sykur
- 400 gr. mascarpone-ostur, við stofuhita
- 200 gr. ítalskar lady finger cooker
- kakó
Lagið sterkt expressó kaffi og látið það kólna, blandið þá víninu saman við ef þið notið það.
Þeytið eggjarauður og sykur saman. Bætið mascarpone ostinum út í eggjablönduna og þeytið vel saman. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim varlega saman við ostablönduna þannig að blandan verði létt og loftmikil.
Dýfið ítölsku fingurkökunum í kaffiblönduna og raðið í botninn á fallegu fati eða skál. Setjið 1/3 – 1/2 af ostablöndunni ofan á – það fer eftir því hve stórt fatið er hvort þið náði 2 eða 3 lögum, en þið raðið til skiptis kökum og ostablöndu.
Geymið í ísskáp í a.m.k. klukkustund áður en borið er fram, en má líka vera mun lengur. og gott getur verið að útbúa réttinn daginn áður en bera á hann fram. Sigtið kakó yfir fatið/skálina rétt áður en þið berið réttinn fram.