Sunnudagar eru fjölskyldudagar og ávalt ljúft og gott að hitta fólkið sitt, fara yfir málefni líðandi stundar, skiptast á sögum, skoðunum, viðburðum og plana komandi daga, vikur og jafnvel mánuði. Eins og svo oft áður var síðbúin árdegisverður í Vatnsholtinu og í þetta sinn voru vöfflur sæti bitinn á borðinu. Vöfflur þessar hafa þróast upp úr nokkrum gömlum og góðum uppskriftum. Þær eru stökkar og góðar. Kardemommurnar gefa þeim dásamlegt tvist og treystið mér, nýsteyttar kardemommur gera svolítinn galdur í þessari uppskrift.
Uppskrift
- 3 egg
- 80 gr. smjör
- 3 dl. mjólk
- 200 gr. hveiti
- 2 tsk. lyftiduft
- 1 msk. sykur
- Kardemommur, fræ úr 2 – 3 belgjum steytt (má sleppa eða nota í staðinn 1/2 – 1 tsk. karedemommuduft)
Bræðið smjörið og kælið, þeytið eggjarauður, smjör og mjólk saman. Hrærið hveitinu saman við, bætið lyftidufti, sykri og kardemommum út í deigið. Þeytið eggjahvíturnar og blandið þeim að lokum varlega saman við deigið. Bakið á vel heitu vöfflujárni. Borið fram með góðri sultu og þeyttum rjóma.