Risotto er einn af uppáhalds ítölsku réttunum mínum. Þegar ég smakkaði risotto í fyrsta skipti varð ég mjög hissa og líkaði hreint ekki að borða að því mér fannst grjónagraut með kjúklinga- og sveppabragði. Ég var vön að elda og borða grjónagraut soðinn í mjólk og bragðbættan með kanilsykri. En bragðlaukarnir hafa þroskast síðan árið 1993 þegar ég heimsótti Mílanó í fyrsta sinn og fannst lítið til risotto koma. Í kvöld elduðum við humar risotto og útbjuggum humarsoðið frá grunni – ég hef áður lýst þeim gjörningi í þessari færslu og mæli með því, en að sjálfsögðu er unnt að nota góðan fiski- og eða humarkraft.
- 2-3 shallot laukar eða 1 matlaukur, smátt saxaðir
- 1-2 hvílauksgeirar kramdir undir hnífsblaði og saxaðir smátt
- 20+30 gr. smjör
- olífuolía
- 300 gr. arborio hrísgrjón
- 2 dl. hvítvín
- 1 l. humar- og/eða fiskisoð
- nokkrir þræðir saffran
- 300 gr. humar skelflettur
- 75 gr. parmesan ostur (parmigioano reggiano) – nýrifinn
- 1 msk. sítrónusafi
- salt og svartur pipar
ofan á hvern disk
- parmesan ostur (parmigioano reggiano) – nýrifinn
- dash af rifnum sítrónuberki
- flatblaðasteinselja
Hitið olíu og smá smjörklípu á pönnu og látið laukinn krauma í 5 – 10 mínútur eða þar til hann verður glær, gætið þess að laukurinn brúnist ekki.
Setjið hrísgrjónin út á pönnuna og hrærið vel saman, leyfið grjónunum að hitna vel í gegn eða þar til þau verða nánast glær. Hellið þá hvítvíninu út á pönnuna og hrærið saman við grjónin og leyfið að sjóða upp í grjónin. Hellið einni ausu af góðu soðinu út á grjónin í einu og hrærið vel í. Grjónin eiga nánast að kalla á meira soð á milli þess sem þið ausið soðinu yfir þau. Þegar grjónin eru nánast soðin, það er eftir u.þ.b. 17 mín. bætið þá saffran út í og síðan humarnum. Þá er smjörinu hrært saman við og loks nánast öllum parmesan ostinum. Kryddið með salti og pipar eftir smekk og berið réttinn fram velheitan. Setjið risotto á diska og skreytið hvern disk með rifnum parmesan osti, ferskri steinselju og örlítlu af rifnum sítrónuberki.
Jömmý…þetta verður sko prófað fljótlega😃❤️