Það er ekki á hverjum degi sem maður rekst á ferskt og brakandi Romaine salat í búðum, þegar það gerist þá bregst ekki að mig langar óskaplega mikið í Caesar salat. Í vikulegri heimsókn minni til Frú Laugu í gær sá ég þessi líka fallegu Romaine höfuð og þar með var sunnudagsmáltíðin ákveðin.
Margir halda að Caesar salatið sé kennt við hinn fræga keisara Julio Ceaser, en það er víst tómur misskilningur. Hið rétta er víst að heiðurinn af salatinu á Caesar Gardini sem var ítalsk ættaður innflytjandi í Bandaríkjunum. Caesar rak veitingastaði bæði í Bandaríkjunum og Mexikó og sagan segir að salatið hafi orðið til að veitingastað hans í San Diego á þjóðhátíðardaginn 4. júlí árið 1924. Þann dag var svo mikið að gera á veitingastaðnum að nánast allt hráefni kláraðist. Í lok dags brá Caesar Gardini því á það ráð að nota það sem til var í salat sem hann kenndi við sig sjálfan . Salat þetta hefur upp frá því ratað á matseðla margra veitingastaða víð um heim, svo ekki sé minnst á matreiðslubækur, -blöð og -blogg sem birt hafa ýmsar útgáfur af þessari uppskrift. Í þeirri upprunalegu er ekki kjúklingur, en ef maður vill hafa salatið aðeins matarmeira þá er upplagt að bæta honum við.
Uppskrift
Brauðtengingar
- 2-3 sneiðar af góðu súrdeigsbrauði, skorið í teninga
- 2 msk. ólífuolía
- sjávarsalt og ferskmalaður pipar
Byrjið á að útbúa brauðteningana. Setjið olífuolíu, salt og pipar í skál, setjið brauðmolana út í og veltið þeim upp úr olíunni. Setjið á bökunarplötu og bakið við 180°C í 10-15 mínútur. Snúið tengingunum einu sinni á bökunartímanum svo þeir bakist jafnt.
Salatsósa
- 1 lítill hvítlauksgeiri
- 2-3 flök ansjósur
- 1 eggjarauða
- 1/2 tsk. dijon sinnep
- 1 msk. sítrónusafi
- 2 tsk. parmesanostur fínt rifinn
- 1 dl. olífuolía
- svartur pipar
Kremjið hvítlauksgeirann undir flötu hnífsblaðinu og saxið síðan mjög smátt. Setjið hvítlaukinn og ansjósurnar í skál og merjið með gaffli. Bætið eggjarauðu, sinnepi, sítrónusafa og parmesanosti út í og hrærið vel saman. Þeytið olíunni smátt og smátt saman við – byrjið á nokkrum dropum í einu og síðan mjórri bunu á meðan þeytt er. Kryddið með pipar og smakkið til, ath bæði ansjósurnar og parmesan osturinn eru sölt svo ekki er nauðsynlegt að salta nema ykkur líki vel söltuð sósa.
- 2 höfuð Romaine salat
- u.þ.b. 30 gr. parmesan ostur skorinn í örþunnar skífur
- (1 kjúklingabringa, krydduð m/salt og pipar, steikt og skorinn í bita) má sleppa
Takið romaine salatblöðin í sundur og rífið gróft eða hafið blöðin heil – blöðin eru misstór og það er smekksatriði hvernig salatið er borið fram. Setjið salatið í skál, dreyfið salatsósu, brauðbitum og kjúklingnum yfir (ef þið notið kjúkling). Stráið loks paresanflögunum yfir salatið. Ég set ekki alla salatsósuna út á salatið, heldur u.þ.b. helminginn og ber hinn helminginn fram í skál með svo hver og einn geti bætt út á eftir smekk.