Þessi uppskrift er ein þeirra sem er í gömlu bláu bókinni minni – þeirri sem ég sagði frá hér. Uppskriftina fékk ég frá mömmu og þegar bræður mínir koma í kaffi og/eða árdegisverð þá verða þeir ósköp ánægðir þegar þeir sjá þessa á borðinu. Það er langt síðan ég bakaði hana síðast og því vel tímabært að rifja hana upp. Að sjálfsögðu hefur uppskriftin aðeins breyst og þróast eins og gerist með uppskriftir sem eru yfir 20 ára gamlar og það á við um þessa. Það var hefð til margra ára að baka hana fyrir prófatörn eldri dóttur minnar sérílagi þegar hún var í menntaskóla. Nú þegar sú yngri er byrjuð í menntaskóla og þreyir fyrstu vorprófin er nauðsynlegt að rifja upp öll góðu ráðin og skella í eina – það gerir próflesturinn örugglega ánægjulegri að fá góða skúffuköku þegar pása er tekin 🙂
Uppskrift
- 2 bollar hveiti
- 1 1/2 bolli sykur
- 1 1/2 tsk. lyftiduft
- 1/2 tsk. sódaduft
- 5 msk. kakó
- 80 gr. smjör brætt
- 1/4 bolli olía (60 ml.)
- 1 bolli mjólk
- 2 egg
Setjið allt hráefni nema eggin í hrærivélaskál og hrærið saman. Eggjunum er bætt í deigið í lokin og hrærð vel saman við. Setjið í vel smurt skúffukökuform (26×35 cm) og bakið við 200°C í 20 mínútur. Látið kólna á meðan kremið er útbúið.
Súkkulaðikrem
- 200 gr. smjör brætt
- 2 msk. vatn
- 2 msk. kakó
- 300 gr. flórsykur
- 1 eggjarauða
Bræðið smjörið í potti og takið tæplega helminginn frá og geymið. Sigtið flórsykur og kakó saman. Hafið pottinn á vægum hita og setjið vatn, flórsykur og kakó út í pottinn og hrærið saman. Slökkvið undir pottinum og takið af hellunni ef enn er á henni hiti. Bætið smjörinu sem var tekið frá saman við og hrærið vel þar til allt blandast vel saman. Loks er eggjarauðunni hrært saman við. Kremið á nú að vera slétt og glansandi. Setjið kremið á skúffukökuna, skreytið að vild – hefðbundið er að strá kókosmjöli yfir.
Mikið er ég glöð að hafa þessa hérna! Get ennþá varla tekið próf án þess að fá svona köku eða kanelsnúða!
Knús á þig elsku besta 🙂
Þessi er einfaldlega langbest 💞🙏
Takk kæra Telma ❤️