Sunnudagar er sannkallaðir fjölskyldudagar og ósköp ljúft að kalla fólkið sitt í árdegisverð, kvöldverð eða bara síðdegiskaffi. Í dag fengum við tengdó í síðdegiskaffi og bökuðum þessa köku sem var svo góð að hún verðskuldar færslu á þessum miðli.
Ég á litla, gamla og lúna bláa minnisbók sem ég færði inn í uppskriftir frá því ég er líklega um 17 ára og þar til fyrir nokkrum árum. Þessi uppskrift er ein þeirra sem eru í bláu bókinni, það var gaman að rifja hana upp í dag og breyta svolítið svo hún félli að breyttum smekk okkar. Útkoman varð dásamleg kaka sem allir voru ánægðir með og mun örugglega verða bökuð aftur áður en langt um líður – einföld og góð með kaffi eða ískaldri mjólk.
Uppskriftin er ekki stór svo formið sem hún er bökuð í má ekki vera of stórt – við notuðum 24 cm formkökuform.
Uppskrift
- 125 gr. smjör
- 90 gr. sykur
- 3 egg
- 150 gr. hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- safi úr 1/2 appelsínu
- rifinn börkur af 1/2 appelsínu
- 75 gr. suðusúkkulaði saxað
Hrærið smjör og sykur vel saman. Bætið eggjunum saman við einu í senn og hrærið vel. Blandið hveiti og lyftidufti saman og bætið út í og hrærið þar til allt hefur blandast vel þá er appelsínusafa og berki bætt út og loks súkkulaði. Sett í velsmurt og hveitistráð formkökuform.
Bakið neðst í ofni við 175 C í 35 – 45 mínútur – tíminn fer svolítið eftir ofninum.
Bakvísun: Skúffukaka ala mamma | Krydd & Krásir