Mikið vildi ég að einhver garðyrkjubóndi á Íslandi ræktaði aspas og seldi. Ég veit ekki mikið um aspas-ræktun, en líklega eru skilyrðin hér ekki góð og ef til vill er íllmögulegt að rækta aspas í gróðurhúsum. Það litla sem ég hef lesið mig til um ræktun á aspas er að það er svolítil fyrirhöfn og að þetta er nokkurra ára ferli, það er frá maður setur aspasinn fyrst í mold og þar til maður fær ríkulega uppskeru. En stundum er unnt að kaupa ferkan innfluttan aspas hér á landi og þá stenst ég ekki mátið. Ég keypti því eitt búnt í gær og grillaði í kvöld. Parmesan ostur, sítróna og ólífuolía eru dásamleg samsetning með grilluðum aspas. Þessi réttur er góður einn og sér sem forréttur eða sem meðlæti með t.d. einföldum og góðum fiskrétti.
- 1 búnt aspas (450 gr.)
- 1/2 sítróna – það er safinn úr henni
- ólífuolía – u.þ.b. helmingi meira magn en sítrónusafinn
- parmesan ostur skorinn í örþunnar skífur
- sjávarsalt
- nýmalaður svartur pipar
Hrærið sítrónusafa og olífuolíu saman. Skerið trénaða endann af aspasinum og grillið á útigrilli eða grillpönnu þar til fallegar rendur koma á hann, snúið honum einu sinni. Um leið og hann er tilbúinn er hann settur á fat eða beint á diskana og hellið sítrónu og olífuolíu yfir, saltið og piprið og stráið örþunnum parmesan skífum yfir.
Bakvísun: Grillaður lax með sítrus ávöxtum og ferskum kryddjurtum | Krydd & Krásir