Er ekki viðeigandi að setja inn uppskrift sem minnir okkur á sumarið og sólina á þessum vindasama og kalda sunnudegi? Stormviðvaranir hafa hljómað í útvarpinu í allan dag og það er vart hundi út sigandi. Enn einn dagurinn sem veðrið minnir okkur hressilega á að við búum á Íslandi en ekki á Sikiley, þaðan sem hluti af hráefninu í þessari uppskrift kemur.
Limoncello er ítalskur sítrónu-líkjör sem er aðallega framleiddur á suður-Ítalíu og er sagður vera annar vinsælasti líkjörinn þar á landi. Líkjörinn er borinn fram ískaldur – yfirleitt beint úr frysti og er ýmist boðið upp á hann fyrir eða eftir mat. Líkjörinn er líka vinsæll í ýmsa kokteila sem eru ákaflega heitir núna á Íslandi. Bestur finnst mér heimagerður Limoncello – en með því að útbúa hann sjálf getur maður stjórnað því hversu sætur hann er. Ég hef útbúið limoncello að minnsta kosti sex sinnum og náð að mastera líkjörinn sem að mínum mati er nú hæfilega sætur, ekki rammur og frýs ekki þegar hann er geymdur í frysti. Sumsé alveg að mínum smekk – hæfilega sætur, fallega gulur og dásamlega góður. Ef til vill vilja einhverjir hafa líkjörinn sætari, fyrir þá er einfalt að bæta meiri sykri út í sírópið þegar þið útbúið það.
Það er mjög einfalt að útbúa Limoncello heima – tekur a.m.k. vikutíma og galdrarnir eins og ávallt – gott hráefni.
- 8 lífrænar sítrónur, einungis ysta lagið af berkinum (þessar komu frá Sikiley 🙂
- 1 lítri vodka – ég nota alltaf Reyka Vodka
Síróp
- 1,5 bolli vatn
- 1,5 bolli sykur
Þvoið sítrónurnar vel og þerrið. Skrælið hýðið af þeim með grænmetisskrælara. Gætið þess að taka eingöngu gula partinn af hýðinu – hvíti hlutinn er rammur og mikilvægt að vanda sig við verkið þannig að sem allra, allra minnst að hvíta hlutanum fylgi með þeim gula.
Setjið sítrónubörkinn í krukku og hellið vodkanum yfir. Geymið á dimmum stað í a.m.k. viku, en í lagi er að láta þetta liggja í allt að 2-3 vikur.
Að viku liðinni er vodkinn sigtaður frá sítrónuberkinum með því að hella honum í gegnum sigti – sjálf set ég grisju í sigtið til að ná vodkanum alveg hreinum.
Útbúið einfalt sykursíróp með því að sjóða saman sykur og vatn þar til sykurinn er alveg uppleystur. Kælið. Blandið sírópinu saman við sítrónuvodkann og hrærið vel saman. Setjið á fallegar flöskur og kælið, ég geymi mitt í frystinum. Berið fram ískalt.
Sérlega vel hepnaður 🙂
æ hvað það gleður mig að þetta hafi glatt þig elsku vinkona 🙂