Hægeldað lambakjöt á vel við um helgar – þegar maður hefur betri tíma til að fást við matargerðina. Þessi réttur er einn þekktasti lambakjötsréttur Marokkó – bragðmikill en mildur, ilmandi af kanil, engifer og kóríander, ákaflega ljúfengur, svolítið sætur og safaríkur. Þurrkuðu ávextirnir, appelsínubörkurinn og hunangið í bland við milt en bragðmikið kryddið ljá þessum rétt einhverja galdra – dásemdar matargaldra. Í Marokkó er rétturinn yfirleitt borinn fram með marokkóskum brauðhleif og brauðið notað til að ná upp ljúffengri sósunni og hreinsa diskana eða ílátin sem rétturinn er borinn fram í. Það má líka bera réttinn fram með hefðbundnu cous cous eins og við gerum hér.
- 1-2 msk olífuolía
- 2 msk möndlur án hýðis
- 1 rauðlaukur, skorinn smátt
- 2-3 hvítlauksgeirar, kramdir undir hnífsblaði og skornir smátt
- 2-3 cm engifer – afhýtt og raspað
- 2 tsk kóríander fræ – steytt í mortéli
- nokkrir saffran þræðir
- 1 kanilstöng
- 700 gr. lambakjöt á beini, t.d. framhryggjarbitar
- u.þ.b. 1 bolli vatn
- 10-12 sveskjur
- 5-7 aprikósur þurrkaðar
- 1 msk. appelsínubörkur
- 1 tsk. hunang
- salt og fersk malaður pipar
- handfylli af fersku kóríander
Hitið olíu í marokkóskri tagínu eða góðum potti – steikið möndlurnar í heitri olíunni þar til þær eru gullinbrúnar. Lækkið hitann og bætið lauknum út í, látið svitna við vægan hita í 5-7 mínútur. Bætið þá hvítlauk, engifer, kóríander, saffran og kanil út í pottinn og blandið vel saman. Bætið því næst kjötinu út í krydd- og laukblönduna, steikið kjötið vel á öllum hliðum þar til það hefur tekið lit og kryddmaukið þekur bitana vel. Hellið vatni út á pönnuna/tagínuna þannig að rétt fljóti yfir kjötið. Lokið með þéttu loki og látið malla við hægan hita í 1 klukkustund.
Bætið sveskjum, aprikósum, hunangi og appelísnuberki út á pönnuna eftir klukkustundar-suðu, kryddið með salti og nýmöluðum pipar. Látið malla áfram í 20 – 30 mínutur.
Smakkið til með salti og pipar og gætið þess að nægur vökvi sé til staðar, ef þörf er á, bætið þið svolitlu vatni út í og látið suðuna koma upp aftur.
Stráið fersku, gróft skrornu kóríander yfir réttinn og berið fram með marrokóskum brauðhleif og/eða cous cous.