Morgunstund gefur gull í mund – ég var lengi að sættast við þennan góða málshátt, enda b-manneskja frameftir öllum aldri og enn finnst mér gott að kúra á morgnana. B-genið hefur líka erfst til dætra minna sem báðar elska að sofa út – en með árunum verður maður árrisulli og um helgar er fátt betra en vakna fremur snemma og dunda sér í eldhúsinu í ró og næði. Fá síðan góða gesti í árdegisverð eða síðdegiskaffi. Þessar múffur með bönunum og möndlum eru hæfilega sætar, mjúkar og góðar og vinsælar í slíku boði.
- 3 þroskaðir bananar
- 100 gr. möndlusmjör
- 100 ml. ab mjólk eða súrmjólk
- 1/2 tsk. vanilludropar
- 1/2 tsk. salt
- 2 egg
- 75 gr. púðusykur
- 250 gr. hveiti
- 25 gr. möndumjöl
- 2 tsk. sódaduft
ofan á
- 100 gr. flórsykur
- ferskur appelsínusafi og ef til vill smávegis af fínt rifnum berkinum
- möndluflögur – ristaðar
Stappið banana vel. Setjið í skál og hrærið möndlusmjöri, ab mjólk, vanilludropum og salti saman við. Bætið eggjunum út í einu í senn og þá púðusykrinum og hærið vel saman. Loks er hveiti, möndlumjöli og sódadufti blandað vel saman við. Gætið þess að hræra deigið ekki of mikið eftir að hveitinu er blandað saman við, því þá er hætt við að múffurnar verði seigar.
Bakið við 180°C í 15-20 mínútur. Kælið
Blandið flórsykri og appelsínusafa saman þar til það er hæfilega þykkt til að unnt sé að setja á kökurnar en þó ekki of þunnt þannig að það renni ekki allt af þeim. Skreytið með ristuðum möndluflögum og njótið með góðu kaffi.