Við erum alls ekki hætt að borða kjöt þó það hafi farið minna fyrir slíkum uppskriftum hér að undanförnu, en við eldum mun oftar grænmetis- og fiskrétti en áður. Ein ástæða þess er að um áramótin setti fjölskyldan sér nokkur markmið eins og ég hef áður sagt frá. Eitt af markmiðum okkar í ár er að elda grænmetisrétt að lágmarki einu sinni í viku. Ég væri að segja ósatt ef ég héldi því fram að okkur hefði tekist 100% að fara eftir þessu – en markmiðið var ekki alveg að halda þessu 100% heldur meira svona tja…. 90% og það gerum við örugglega og vel það. Það er svo merkilegt að þegar maður setur sér markmið sem eru raunsæ, mælanlegt og tímasett þá verður svo miklu einfaldara að vinna að þeim. Þetta á bæði við um markmið sem snúa að einkalífi, námi og vinnu. Markmiðin þurfa ekkert endilega að vera mjög háleit og flókin, það er líka gaman að setja sér einföld markmið sem snúa að því að njóta lífsins í amstri dagsins – markmið sem miða að því að búa til ógleymanlegar stundir með fólkinu sem manni þykir vænst um. Jeminn eini nú er ég að verða væmin og komin langt frá þessum dásemdarrétti sem eldaður var í Vatnsholtinu í gærkvöldi – það hefur lengi staðið til að búa til nýjan Risotto rétt – hugmyndin af þessum er komin frá River Cottage – en ekki hvað, dvölin þar var meðal þeirra markmiða sem ég skrifaði niður á fyrsta degi þessa árs. Uppskriftirnar verða tvær í dag – önnur af tómatmaukinu dásamlega sem notað er í réttinn – hin af risotto-réttinum góða.
- smjörklípa u.þ.b. 30 gr.
- 1 msk. olífuolía
- 2-3 shallot laukar eða 1 matlaukur, smátt saxaðir
- 1 hvítlauksgeiri, marinn undir hnífsblaði og saxaður mjög smátt
- 250 gr. arborio hrísgrjón
- 1 dl. hvítvín
- 7 dl. grænmetissoð
- 2,5 dl. ofnbakað tómatmauk (sjá uppskrift hér)
- 1 mozzarella-ostur (120 gr.), skorinn í bita um það vil 1-1,5 cm
- 1 dl. rifinn parmesan ostur
- salt og pipar
- nokkur blöð fersk basilika
Bræðið smjör og olíu á pönnu og látið laukinn krauma við vægan hita í 7 – 10 mínútur eða þar til hann verður glær. Gætið þess að laukurinn brúnist ekki. Bætið þá hvítlauknum út á pönnuna og hærið síðan hrísgrjónunum saman við.
Leyfið grjónunum að hitna vel í gegn eða þar til þau verða nánast glær. Hellið þá hvítvíninu út á pönnuna og hrærið saman við grjónin. Hellið einni ausu af góðu grænmetissoðinu í senn út á grjónin í einu og hrærið vel. Grjónin eiga nánast að kalla á meira soð á milli þess sem þið ausið soðinu yfir þau. Þegar grjónin eru nánast soðin, það er eftir u.þ.b. 17 mín. bætið þá tómatmaukinu saman við og látið malla í nokkrar mínútur. Kryddið með salti og pipar. Bætið ostinum út í blandið vel saman – en ekki hræra of mikið, maður vill aðeins finna fyrir mozzarella-bitunum.
Stráið ferskri gróft saxaðri basiliku yfir réttinn áður en hann er borinn fram. Berið fram með einföldu grænu sallati, t.d. klettakáli og sherry tómötum.