Þessi eru svolítið uppáhalds, einföld, fljótleg og passar við hin ýmsu tækifæri. Við hjónin göngum töluvert á fjöll og í slíkum ferðum er mikilvægt að hafa holt og gott nesti – sérílagi í lengri ferðum sem reyna á úthald og orku. Flatkökur með hangikjöti er klassík sem flestir þekkja, ég var orðin svolítið leið á þeim en finnst flatkökurnar þó alveg ómissandi hluti af nestisflórunni í fjallgöngunum. Þessi samsetning varð til fyrir einhverja gönguferðina fyrir nokkrum árum og hefur fylgt mér síðan, ekki bara í göngur heldur við hin ýmsu tækifæri. Þær eru smart snarl með freyðivíni eða kokteil, hafa hitt í mark á löngu úthaldi í karphúsinu þegar samninganefndin var alveg að missa húmorinn, þær fylgdu mér á topp Hvannadalshnjúks fyrir rétt tæpu ári og eru frábær hluti af smáréttum í hinum ýmsu boðum. Get því heilshugar mælt með þessari samsetningu við hin ýmsu tækifæri.
Uppskrift
- Flatkökur
- Rjómaostur
- Reyktur lax
- Klettakál
- Nýmalaður svartur pipar
Skerið reykta laxinn í þunnar sneiðar. Smyrjið flatkökurnar með rjómaosti, raðið laxasneiðum ofan á, stráið klettakáli yfir laxinn og piprið aðeins yfir með nýmöluðum pipar. Skerið í fallegar sneiðar og raðið á fallegt fat ef þið ætlið að bera þetta fram sem smárétt eða brjótið saman, setjið poka og í nestisboxið fyrir góðar gönguferðir.