B50 – ginkokteill

 Um  nokkurt skeið hefur staðið til að smella í færslu um uppáhalds-kokteilinn minn.  Ég hef fengið nokkrar spurningar um innihaldið og veit að það eru margir sem bíða eftir þessari færslu. Loks er hún hér en fyrst verð ég aðeins að fara yfir tilurð þessa drykkjar – sú saga er nefninlega alveg hreint mögnuð og ég mun lifa á minningunum um ókomna tíð svo mikið er víst.

Í lok síðasta sumars átti ég stórafmæli. Af ýmsum góðum og gildum ástæðum ákvað ég að það væri betra að bíða í eitt ár með hátíðarhöld og í samráði við fjölskylduna var það ákveðið. Ég stóð við mitt, hafði ekkert sérstakt á prjónunum þennan dag, annað en að mæta í vinnuna og ef til vill að fara út að borða á rólegan og huggulegan stað með fjölskyldunni sem hafði 10 dögum áður stækkað svo um munaði þegar fyrsta og fallegasta ömmustelpan mín kom í heiminn.

Það sem ég vissi hins vegar ekki var að fjölskylda mín, vinir, vinnufélagar og meira að segja borgarstjórinn í Reykjavík höfðu eitthvað annað á prjónunum. Ég mætti til vinnu upp úr klukkan 9 að morgni afmælisdagsins, á vinnufund sem borgarstjóri stýrði. Ég vonaði svo heitt að enginn vissi af þessum afmælisdegi og varð ákaflega létt þegar ég mætti og allt leit út fyrir að mér hefði orðið að ósk minni.  Fundurinn var settur á hefðbundinn hátt og þegar Dagur var búinn  að fara yfir dagskrá og fyrirkomulag dagsins, bað hann fundarmenn um að hinkra aðeins, skaust afsýðis og birtist síðan syngjandi með blöðrur og afmælisköku og kerti…. uff og ég sem nokkrum mínútum fyrr hafði prísað mig sæla yfir því að enginn vissi af þessum annars stórkostlega degi 🙂

Afmæli-aEn þetta var bara byrjunin því fjölmargt samstarfsfólk mitt arkaði töluvert langa leið í hádeginu og lét kalla mig út af fundinum og alla leið út á tröppur.  Þar stóðu þau svo stórkostleg og sungu fyrir mig þar sem ég stóð á tröppunum á Höfða þar sem vinnufundurinn var haldinn og færðu mér blóm og dásemdargjöf – þvílík stund, magnað móment verð ég að játa.

afmæli2Og þar með var óvæntum og skemmtilegum uppákomum ekki lokið. Eftir vinnu hjólaði ég heim, með blóm og pakka á bögglaberanum, í háum hælum og með hjálm, já frekar smart held ég bara. Ég bý við fáfarna götu ekki langt frá fundarstaðnum og þegar ég hjólaði upp göngustíginn sem er við enda götunnar sá ég að það var undarlega mörgum bílum lagt í götunni….. þegar nær var komið sá ég að garðurinn minn var skreyttur með fánum og kertaluktum, fullt af nýjum garðhúsgögnum voru þarna og það besta fullt, fullt fullt af fólki sem mér þykir svo óendanlega vænt um. Allt þetta fólk hafði lagt á ráðin með manninum mínum og dætrum. Sum þeirra höfðu tekið frí frá vinnu þennan dag og mætt heim til mín þegar ég var farin til vinnu, skreytt hús og garð, útbúið veitingar, náð í garðhúsgögn, glös og skreytingar hingað og þangað um bæinn – og slegið upp fallegustu, skemmtilegustu og bestu veislu sem hægt er að hugsa sér.  Elskulegur eiginmaður minn hafði sumsé ekki verið að vinna frameftir nokkur kvöld þessa viku eins og hann hafði sagt mér, heldur hitt nokkrar góðar vinkonur mínar til þess að leggja á ráðin og skipta verkum. Þessir fundir voru víst mjög skemmtilegir – meðal annars var frumútgáfan af þessum drykk þróuð á þessum fundum, enda ein vinkona mín margfaldur íslandsmeistari barþjóna og kann sitthvað þegar kemur að einföldum og góðum drykkjum sem hugnast flestum. Það var hrærð, glöð og þakklát kona sem tók á móti nýjum áratug með besta fólkinu sínu.

Í dag er síðasti vetrardagur, nokkrir mánuðir og heill vetur frá þessum stórkostlega stórafmælisdegi mínum og minningarnar frá þessum dásemdar degi munu ylja mér um ókomin ár. Á morgun er sumardagurinn fyrsti – um leið og ég segi gleðilegt sumar vil ég enn og aftur segja ástarþakkir öll sem eitt, fjölskylda, vinir, vinnufélagar – það er fátt betra en eiga góða að!  Njótum hvers dags og búum saman til góða innistæðu í minningarbanka okkar – slík innistæða er tölvuert verðmætari en bankareikningar á Tortóla 🙂

 Uppskrift (eitt glas) 

  • 30 ml. gin
  • lime, safi úr hálfu + ein þunn sneið
  • 1 grein rósmarín
  • 3-4 þunnar sneiðar rautt cili
  • 1-2 sneiðar agúrka
  • klaki
  • Seven up eða Sprite

Setjið gin, limesafa, eina sneið chili og tvær nálar af rósmaríngreininni í glas og merjið saman með skeið eða mortéli til að fá bragðið af chili og rósmarín betur fram.  Hálf-fyllið glasið með klaka, setjið gúrku, chili og rósmarín greinina í glasið og hellið seven upp yfir þar til glasið er nánast fullt, hrærið saman og njótið – SKÁL 🙂

img_6031
p.s. Einfalt er að gera þennan drykk óáfengan með því að sleppa gininu, þannig er hann bæði mjög góður og alveg jafn fallegur.

img_0006

 

Þessi færsla var birt í Drykkir, Vinsælar uppskriftir og merkt sem , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við B50 – ginkokteill

  1. Bakvísun: Kokteilar – Í Prjónaskapi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s