Það er örugglega ekki mikil þörf á fleiri lasagne uppskriftum á netið, en þessi er fyrir elsku Matta bróður og stelpurnar mínar sem elska þetta lasagne. Ég veit að þau munu nýta, nota og njóta þessara uppskrifta hér. Gerið svo vel elskurnar – það er sirka svona sem þetta gerist 🙂 Nóta bene – þetta er einfalt þrátt fyrir langlokuna sem hér birtist.
Uppskrift og aðferð
Kjötsósan
- 1 msk. ólífuolía
- 1 msk. smjör
- 2-3 sneiðar gott beikon skorið í litla bita
- 1 laukur fínsaxaður
- 1 selleristöngull skorinn í teninga
- 1 gulrót skorin í teninga
- 1/4 – 1/2 chilli finsaxað
- 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
- 450 gr. nautahakk
- 1 dós tómatar
- 1 msk. tómatkraftur
- 300 ml. nautasoð
- nýmalaður pipar
- salt
Bræðið smjör með olífuolíu á stórri pönnu. Bætið beikoni, lauk, gulrót, sellerí og chillí saman við og látið krauma við vægan hita í 10 mín. Hrærið oft í á meðan svo ekki festist á pönnunni. Hækkið hitann og bætið hakkinu á pönnuna og steikið þar til allt er gegnsteikt. Bætið tómötum, tómatkrafti, hvítlauk og nautasoði á pönnuna. Kryddið með salti og pipar eftir smekk – mikilvægt er að nota gott salt og góðan pipar – þetta klassíska krydd gerir kraftaverk ef gæðin eru rétt. Látið suðuna koma upp, lækkið þá hitann og látið malla undir loki í að lágmarki 1 klst. Gott er að gera kjötsósuna daginn áður eða að morgni ef útbúa á réttinn að kvöldi, á þann hátt verður bragðið dýpra og betra, en þetta er svo sannarlega ekki nauðsynlegt.
- Bechamel sósa (hvíta mjólkursósan)
- 40 gr. smör
- 40 gr. hveiti
- 600 ml. mjólk heit
- 1 tsk. salt
- 1 tsk.pipar nýmalaður
- 1 tsk. múskat (nýrifin er best)
Bræðið smjör í potti – passið að hafa hitann ekki of mikinn. Hrærið hveiti saman við og búið til hveitibollu. Hrærið mjólkinni saman við í smáum skömmtum. Kryddið með salti, pipar og múskat. Látið malla í smá stund og hrærið stöðugt í á meðan.
Samsetning
- Lasagne plötur, þurrkaðar eða ferskar
- Rifinn ostur
Setjið þunnt lag af kjötsósu í botn á eldföstu móti, raðið lasagne plötum ofan á. Þunnt lag af Bachamel sósu er sett ofan á plöturnar, þá kjötsósa, lasagneplötur og hvít sósa, endið á kjötsósu. Stráið góðu lagi af rifnum osti yfir efsta lagið.
Bakið í forhituðum ofni við 180 – 200°C í 25 – 30 mínútur. Borið fram með góðu salati.
Bakvísun: Spínat lasagne með ricotta, pestó og furuhnetum | Krydd & Krásir