Grænmetisréttir eru hrein snilld og þrátt fyrir að Vatnsholtsgengið borði enn kjöt og fisk, þá höfum við markvisst fjölgað þeim dögum sem við eldum góða grænmetisrétti. Þessi réttur er einn þeirra – hugmyndin er úr einu af Olive matar-tímaritinu sem ég er rafrænn áskrifandi af og fæ sent á I-padinn minn reglulega.
Ég hef nokkrum sinnum eldað þennan rétt og hann vekur alltaf mikla ánægju, meira að segja táningurinn umlar af ánægju. Hún sem var full efasemda í fyrsta sinn sem við elduðum hann og óskaði eftir því að það væru tvær útgáfur af lasagne á boðstólnum, það er þessi hér líka sem er hennar uppáhalds. Núna á hún tvo uppáhalds-lasagna rétti. Ég hlakka ósegjanlega mikið til að elda þá báða fyrir hana þegar hún kemur heim eftir tæplega árs skiptinema dvöl í Austuríki. Þangað til mun hún spreyta sig sjálf á eldamennskunni og leyfa Austurrísku fjölskyldunni sinni að njóta með sér, en ákall hennar eftir þessari uppskrift varð til þess að ég ákvað að skrá og mynda réttinn eins og hann hefur þróast hjá okkur – já þetta blogg er svo sannarlega fjölskyldusport.
Uppskrift
- 75 gr. smjör
- 75 gr. hveiti
- 600 ml. mjólk
- 300 gr. ricotta ostur*
- 50 gr. parmesan ostur, rifinn
- 50 gr. rifinn ostur
- 1 tsk. múskat (best er að rífa múskathnetu, kryddið er mun ferskara þannig)
- 200 gr. ferskt spínat, saxað fremur gróft
- 1 laukur, saxaður smátt
- 150 gr. grænt pestó – þetta hefðbundna ítalska, heimalagað er best sjá uppskrift hér
- 175-200 gr. lasagne plötur
- 2 msk. furuhnetur
Skerið laukinn smátt og látið hann krauma við vægan hita í smá smjöri og olíu í 7-10 mínútur, á meðan þið útbúið sósuna.
Bræðið smjör í fremur rúmgóðum potti, fyllingin endar öll í þessum potti svo hann þarf að vera rúmur. Gætið þess að hafa hitann á smjörinu ekki of mikinn, hrærið hveitinu út í heitt smjörið og búið til hveitibollu. Hrærið mjólkinni saman við í smáum skömmtum. Kryddið með salti, pipar og nýrifnu múskati. Látið malla í smá stund og hrærið stöðugt í á meðan. Blandið lauknum sem hefur nú mallað í dágóða stund saman við sósuna og takið pottinn af hitanum. Bætið ricotta ostinum og ríflega helmingnum af parmesan ostinum út í og hrærið þar til ostarnir hafa blandast sósunni hefur vel.
Takið nokkrar msk. frá til að setja ofan á efsta lagið í lokin. Hrærið nú fersku spínatinu saman við og loks grænu pestói.
Setjið 1/3 eða 1/4 í botninn á eldföstu ferköntuðu fati (magn af sósunni fer eftir stærð á fatinu sem þið eruð með, minna fat fleiri lög). Raðið pasta plötum ofan á og síðan sósu – 3-4 lög. Ofan á efsta lagið af lasagne plötum fer sósan sem þið tókuð frá áður en spínati og pestó var hrært út í. Stráið rifnum osti og restinni af parmesan ostinum yfir og loks furuhnetunum. Bakið við 180°C í 35 – 45 mínútur. Berið fram með einföldu salati.
* Uppskrift af Ricotta má nálgast hér en stundum er unnt að kaupa ferskan ricotta í ostabúðum eða betri matvöruverslunum, en auk þess er unnt að nota kotasælu í stað ricotta.