Þriðja uppskriftin af brauðbollum á stuttum tíma og það er ástæða fyrir því – við bökum gjarnan brauðbollur og höfum á árdegisverðarborðinu um helgar. Það eru okkar gæðastundir, þegar við köllum saman fjölskyldu og vini, sitjum lengi yfir góðum smáréttum og spjöllum um landsins gagn og nauðsynjar, skondna hluti og alvarlega, drauma okkar og veruleika -hlægjum svolítið og tökum kannski í spil.
Þessi brauðbolluuppskrift er sú sem lengst hefur fylgt okkur og hefur líklega verið bökuð oftar en nokkuð annað á þessu heimili. Það er lítið mál að breyta uppskriftinni eftir því sem hugurinn og birgðarstaða eldhússkápanna býður. Stundum setjum við mismunandi fræ á bollurnar, stundum ost, það kemur fyrir að við kryddum deigið með ferskum kryddjurtum úr garðinum, breytum hlutföllum mjölsins, höfum þær mjög grófar eða mjög fínar. Þá er gaman að búa til partýbrauð – það er raða bollunum það þétt að þegar þær bakast þá festast þær saman í skemmtilegan hring eða annað form, allt eftir því hvernig stuði maður er í þann daginn.
Uppskrift
- 5 dl. mjólk
- 1 dl. olía
- 12 gr. þurrger eða 50 gr. pressuger
- 1 tsk. hunang
- 2 tsk. salt
- 500 gr. hveiti
- 400 gr. heilhveiti (eða rúgmjöl eða annað skemmtilegt gróft mjöl)
Ofan á bollurnar er gott að setja
- mjólk til að pensla bollurnar eða dýfa bollunum í (betra að dýfa – þannig verður áferðin jafnari)
- sesam fræ
- sólblómafræ
- graskersfræ
- birki
- ostur í sneiðum
Velgið mjólkina og hrærið hunangið út í. Leysið gerið upp í volgri mjólkinni þar til það fer að freyða.
Hnoðið öllu saman. Láta hefast þar til deigið tvöfaldast, það tekur að lágmarki 1 klst, gott er að gefa deiginu lengri tíma, bollurnar verða bara betri.
Mótið deigið í lengju, skerið í jafna bita og mótið í bollur. Dýfið bollunum fyrst í mjólk og síðan í fræ eða setjið litla sneið af osti ofan á hverja bollu. Til þess að fræin festist og haldist vel á bollunum finnst mér best að dýfa bollunum fyrst í mjólkina sem ég set í grunna skál og síðan í fræ sem eru í grunnri skál eða á disk.
Bakið við 200°C í u.þ.b. 15 mínútur.
Bakvísun: Spænsk fiskisúpa með chorizo pylsu | Krydd & Krásir
Bakaru bollurnar á blæstri?
Sæl Steinunn – já ég baka bollurnar alltaf á blæstri 🙂 og stundum set ég hitaþolna skál með vatni í botn ofnsins