Það er fátt skemmtilegra en gott matarboð með skemmtilegu fólki – eitt slíkt var í Vatnsholtinu ekki alls fyrir löngu og þá var þessi réttur meðal þess sem var á borðum. Ferskar fíkjur með mozzarella og hráskinku er tilvalinn réttur þegar þú vilt koma á óvart án þess að hafa allt of mikið fyrir hlutunum. Forréttur eða smáréttur sem engin getur staðist. Borið fram með fersku salati og örlítilli skvettu af góðu balsamik ediki.
- 4 ferkar fíkjur
- 2 mozzarella-kúlur
- 8 sneiðar góð hráskinka
- falleg og góð salatblöð
- gott balsamikedik
- 8 trépinnar stuttir
Skerið fíkjurnar í tvennt og mozzarella-kúlurnar í 4 hluta.
Leggið mozzarella-ostinn og fíkjuna saman, vefjið góðri hráskinku utan um og stingið tréprjóni í gegn.
Grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið – hvort sem er undir heitu grilli í ofni eða á útigrillinu.
Setjið gott salat á disk, leggið fíkjuna yfir og dreypið nokkrum dropum af góðu balsamik ediki yfir áður en borið er fram.