Löng helgi að baki og vetrarfrí í framhaldsskólum. Mikið ósköp er nú ljúft að taka frí með unglingnum sínum og verja langri helginni með góðum vinum á einum af uppáhaldsstöðunum okkar – Hraunsnefi í Norðurárdal.
Áður en við lögðum í´ann á föstudaginn bökuðum við mæðgur kanilsnúða með marsipani. Snúðar sem vekja alltaf lukku, enda mjúkir, sætir og góðir og fátt ljúfara en að fá sér gott kaffi eða heitt kakó og nýja kanilsnúða eftir útiveru við vegagerð og trjárækt.
Uppskrift
- 1 pakki þurrger
- 5 dl mjólk
- 1 dl sykur
- 1 dl bragðlítil olía t.d. isio
- 1/2 tsk. salt
- 12 – 13 dl. hveiti
Fylling
- Brætt smjör, kanilsykur og marsipan eftir smekk
Blandið gerinu við ylvolga mjólkina ásamt 1 msk. sykri og látið standa þar til gerið fer að freyða.
Blandið hveiti og sykri saman í skál, hellið olíunni og gerblöndunni saman við. Gott er að hnoða saman í hærivélaskál með hnoðara. Látið hefast undir klút í að minnsta kosti 30 – 60 mínútur.
Hnoðið loftið úr deiginu og skiptið því í 2 – 3 hluta.
Fletið hvern hluta deigsins út í fremur ílangan ferning.
Penslið deigið með bræddu smjöri, stráið kanilsykri yfir og rífið loks maripan yfir kanilsykurinn.
Rúllið deiginu jafnt og þétt upp. Skerið í jafna bita, raðið snúðunum og pappírklædda bökunarplötu.
Þrýstið aðeins á snúðana með fingrunum, penslið með mjólk og stráið örlítlum kanilsykri yfir.
Látið snúðana hefast á plötunni í 15 – 30 mínútur.
Bakið við 220°C í 5 – 8 mínútur.
Snúðarnir eru bestir nýbakaðir. Upplagt er að frysta þá, stinga þeim síðan frosnum í heitan ofninn í nokkrar mínútur.