Eitt af því sem mér finnst mjög skemmtilegt fyrir jólin er að útbúa litlar bragðgóðar jólagjafir og læða þeim með í pakka til ættingja og vina. Ég hef oftast verið duglegri við þá iðju en raunin varð í ár. Aðventan var töluvert annasamari en oft áður og leið líka einhvern vegin mun hraðar – kannski það séu árin sem gera það að verkum, hver veit? En ég er svo sannarlega staðráðin í að bæta verulega úr þessu á ári komandi. Ég gerði þó nokkrar gjafir sem sumir fengu fyrir jólin, en aðrir nú fyrir áramót. Þessa sultu er til dæmis gaman gefa í fallega skreyttri krukku. Rauðlaukssulta er ómissandi með góðu villibráðarpaté, svo ekki sé minnst á gæsaborgarana sem ég sagði frá hérna. Sultan er einnig mjög góð með kalkún og svínasteik svo ekki sé minnst á með góðum ostum og brauði.
- 2-3 msk. olía
- 4 rauðlaukar, skrornir í tvennt og sneiddir í þunnar sneiðar
- 6-8 greinar tímían
- 1 lárviðarlauf
- 3 msk. balsamikedik
- 2-3 msk. hrásykur
- salt og pipar
Hitið olíuna í góðum potti og setjið lauk, tímían og lárviðarlauf út í . Steikið við lágan hita í olíunni þar til laukurinn er orðinn mjúkur eða í u.þ.b. 5 mínútur. Bætið balsamik-ediki og sykri út í og látið malla undir loki við lágan hita í 30 – 40 mínútur. Hrærið reglulega í lauksultunni. Saltið og pipri eftir smekk.