Það eru ansi mörg ár síðan ég bakaði marmaraköku síðast, en það gerði ég oft þegar ég var unglingur í sveit á sumrin. Þá bakaði ég formkökur nánast daglega og skemmtilegast fannst mér að baka marmarakökur. Um daginn sat ég á kaffihúsi og gluggaði í bókina Scandinavian Baking og sá þá nýja útfærslu á hefðbundinni marmaraköku – nýjungin felst í því að skera þurrkaðar aprikósur mjög smátt niður og setja í ljósa deigið og súkkulaðibita í dökka deigið – skemmtilegt tvist á gamla og góða uppskrift. Eins og áður hafa gömlu góðu uppskriftirnar þróast mjög – ég tók gömlu góðu uppskriftabókina mína, fann uppskrift af marmarakökunni sem ég bakaði í sveitinni fyrir margt löngu, skipti smjörlíki út fyrir ekta smjör, minnkaði sykurinn töluvert og bætti aprikósum og suðusúkkulaði við. Útkoman er svo góð að hún verðskuldar færslu – það er alltaf jafn gaman að bera nýbakaða góða köku fram með sunnudagskaffinu.
Uppskrift
- 250 gr. smjör
- 180 gr. sykur
- 4 egg
- 220 gr. hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- 2 msk. kakó
- 50 gr. suðusúkkulaði, skorið smátt
- 50 gr. aprikósur, skornar smátt
Hrærið smjör og sykur vel saman. Bætið eggjunum út í einu í senn og hrærið vel á milli. Bætið hveiti, lyftidufti smátt og smátt saman við og hrærið þar til allt er vel samlagað en gætið þess að hræra ekki of lengi. Skiptið deiginu jafnt í tvær skálar. Hrærið kakó og súkkulaði út í annan helmingin en aprikósur í hinn helminginn.
Setjið súkkulaðideigið í velsmurt formkökuform (okkar form er 28 cm langt) og jafnið út. Setjið ljósa deigið með aprikósunum ofan á súkkulaði deigið, jafnið út. Takið sleif og setjið ofan í miðju formsins og dragið yfir formið til þess að fá fallegt munstur í deigið, endurtakið um það bil þrisvar sinnum á mismunandi stöðum.
Bakað við 180°C í 60 – 70 mínútur eða þar til prjónn sem stunginn er i miðjuna kemur hreinn út.
Leyfið kökunni að kólna í forminu í 15 – 20 mínútur áður en hún er tekin úr því. Berið fram með góðu kaffi eða kaldri mjólk.