Ég veit ekki alveg hvað skal segja um þessar kjötbollur annað en að þær eru hreint afbragð. Hugmyndin er fengin úr eldgamalli indverskri matreiðslubók sem ég á. Það er ekki alltaf einfalt að nálgast lambahakk – en ef þið farið í sérverslanir, s.s. Kjöthöllina eða Kjöt og fisk þá er oftast unnt að láta hakka fyrir sig á meðan maður býður, nú eða hringja á undan sér og panta það. Sjálf hef ég ekki prófað að nota nautahakk í þessar bollur en án efa breytir það ekki miklu. Vilji maður hins vegar vera trúr indverkri matarhefð þá er það lambið sem verður ofan á 🙂 Magn chili í þessari uppskrift fer eftir smekk hvers og eins og því gef ég upp svolítið bil – hver og einn verður að aðlaga uppskriftina að eigin smekk og munið það er alltaf unnt að bæta smávegis chili við – en ómögulegt að minnka magnið eftir að það er einu sinni búið að blanda því saman við annað hráefni 🙂
Bollur
- 500 gr. lambahakk
- 1/2 – 1 chili, rauður eða grænn, fræhreinsaður og skorinn smátt
- 1 hvítlauksgeiri, marinn undir hnífsblaði og smátt saxaður
- 2 cm bútur engifer – rifin smátt
- 1/4 tsk garam masala
- 1/2 tsk salt
- pipar e. smekk
- 2 – 3 msk söxuð flatblaða-steinselja eða kóríander
Setjið allt sem hráefnið í matvinnsluvél og vinnið saman í nokkrar mínútur.
Mótið 18 – 20 bollur. Geymið á meðan sósan er útbúin.
Sósa
- 1 msk. olía
- 1/4 tsk sinnepsfræ
- 1/2 tsk broddkúmen fræ
- 1 laukur, skorinn frekar smátt
- 1 hvítlauksgeiri, marinn undir hnífsblaði og saxaður smátt
- 2 cm engiferrót – rifinn smátt
- 1 tsk broddkúmen
- 1 tsk kóríanderduft
- 1/4 – 1/2 tsk. chili duft
- 1 dós tómatar, saxaðir
- 1 msk tómatpúrra
- 1/2 bolli vatn
- salt og pipar
Hitið olíuna á pönnu og steikið sinneps- og broddkúmenfræin þar til þau byrja að poppa. Lækkið hitann undir pönnunni og bætið lauk, hvítlauk og engifer út á pönnuna, látið malla í u.þ.b. 5 mínútur. Bætið kryddinu, tómötum, tómatpúrru og vatni út á pönnuna og hrærið vel saman.
Raðið bollunum út á pönnuna og látið sjóða við vægan hita í u.þ.b. 25 mínútur.
Berið fram með góðum hrísgrjónum og ef til vill grænu salati og nan brauði.