Ferskur fiskur er hráefni sem seint verður ofmetið – með lítilli fyrirhöfn og á skömmum tíma er unnt að hrista fram úr erminni veislumáltíð sem á vel við hvort sem er í miðri viku eða um helgar. Þessi dásemd varð til um daginn í einhverri tilraunmennsku í eldhúsinu í Vatnsholti. Sjálfri finnst mér ricotta ostur hrein dásemd og eftir að hafa farið á ostanámskeið hjá Salt eldhúsi þar sem ég komst af því hve fljótlegt og einfalt er að útbúa sinn eigin ricotta þá dreymir mig eilítið sjaldnar um að heimsækja Ítalíu. En nb! Ítalía verður alltaf uppáhalds – fólkið, maturinn, strendurnar, sveitirnar, vötnin, fjöllin, skíðabrekkurnar….. ég gæti haldið nánast endalaust áfram. En ítalir eiga ekki ferskan þorsk 🙂 Hinn ítalsk ættaði ricotta passar ótrúlega vel við hinn íslenska þorsk – sérílagi með smá basiliku, hvítlauk, parmesan, dash af olífuolíu og helling af spínati – nánast fullkomið par.
- 700 gr. þorskur
- 2 msk olía
- 2 lúkur spínat
- 8 blöð basilika
- 2 hvítlauksgeirar
- 1/2 bolli ricotta ostur
- 4 msk. rifinn parmesan ostur
- Salt og pipar
Hitið bakarofninn í 200°C.
Hitið u.þ.b. 1 msk. af olíu á pönnu og steikið spínatið. Pressið hvítlaukinn og blandið saman við spínatið.
Blandið saman ricotta osti, gróft saxaðri basiliku, rifnum parmesan og steiktu spínati ásamt hvítlauk. Saltið og piprið.
Setjið þorskbitana í eldfast mót, penslið með smávegis af olífuolíu og kryddið með salti og pipar.
Jafnið spínatblöndunni ofan á fiskbitana. Bakið í ofni í um það bil 8-10 mínútur.
Berið fram með góðu salati og ef til vill nýbökuðu brauði – í þetta sinn átti ég afgang að pizzabotnsdeigi í ísskápnum, sem ég flatti út, penslaði með góðri olífuolíu og saltaði með eðalsalti – bakaði síðan við mjög háan hita þar til það var gullið.
En það eru fleiri en heimilfólkið sem gleðjast þegar ferskur fiskur er á borðum í Vatnsholti – Kötturinn finnur lyktina af ferskum fisk um leið og komið er með hann heim úr fiskbúðinni. Eftir nokkur balletspor fær hann smábita af hráum fisk og malar makindalega.