Eitt af því sem er svo mikilvægt að muna þegar maður vex frá því að vera barn, unglingur og já ungur, dem….. já ég segi það bara og skrifa – þegar maður er kominn á þann virðulega aldur að vera kallaður miðaldra….. já já – ég er komin á þann aldur og svei mér ef það er ekki um það bil helmingi skemmtilegra en ég hafði þorað að vona 🙂 En það sem maður þarf sumsé að muna vel er halda áfram að vera ungur í anda. Muna eftir mikilvægi þess að leika sér, taka frá tíma til þess að upplifa eitthvað nýtt, spennandi og skemmtilegt. Halda í gleðina, fíflast svolítið og umfram allt velja sér skemmtilega og jákvæða vini. Við erum svo heppin að eiga marga slíka vini, vini sem eru duglegir að minna okkur á þetta – búa til móment sem eru ógleymanleg – bæði fyrir okkur og líka fyrir börnin okkar.
Um síðustu helgi lögðum við land undir fót með góðum vinum og fórum norður – fyrst til Akureyrar og þaðan í Reykjadalinn og Mývatnssveit. Við fórum á skíði, vitjuðum neta og drógum spriklandi ferskan silung í gegnum vakir á ísilögðu Másvatni, böðuðum okkur í funheitri gjá, gengum í drullusvaðinu í Bjarnarflagi, skoðuðum geitur og forystufé, borðuðum í fjósi á meðan mjaltir stóðu yfir, elduðum góðan mat og borðuðum jafnvel enn betri mat. Heim komum við endurnærð með fullt af skemmtilegum minningum í farteskinu – og spriklandi ferskan silung úr Másvatni sem fékk fádæma góðar viðtökur hjá Vatnsholtsgenginu í kvöld.
- 2 – 4 silungsflök (eftir stærð)
- 1-2 msk. olía
- 30 gr. smjör
- salt og pipar
Krydd- og sítrónumauk
- 1 hvítlauksgeiri
- 2 tsk. kapers
- hnefafylli af steinselju
- 10 blöð basilika
- 1 sítróna – börkur og safi úr 1/2
- 1 msk. olífuolía
Byrjið á kryddmaukinu.
Merjið hvítlauksgeirann undir hnífsblaði og saxið smátt. Saxið kapersið, steinseljuna og basilikuna smátt. Rífið ysta lagið af sítrónunni og blandið saman við smátt saxað kryddið. Setjið allt í skál, kreistið safann úr hálfri sítrónu yfir, bætið olífuolíunni saman við og hrærið vel saman.
Kryddið silungsflökin með nýmöluðum pipar og góðu sjávarsalti. Hitið olíu á pönnu og steikið flökin fyrst á roðlausu hliðinn í um það bil 2-3 mínútur, snúið flökunum við og steikið áfram í 2 mínútur. Bætið smjörinu út á pönnuna og síðan kryddjurtamaukinu, þegar smjörið hefur bráðnað. Hrærið kryddmaukinu saman við smjörið og ausið yfir fiskinn. Gætið þess að ofsteikja fiskinn ekki – hann heldur áfram að eldast í nokkrar mínútur eftir að þið takið hann af hitanum – þess vegna er ágætt að taka hann af pönnunni áður en maður er viss um að hann sé eldaður í gegn.
Berið fram með einföldu og góðu salati og/eða soðnum kartöflum.