Þetta tómatmauk er vel þess virði að hafa aðeins fyrir því – dásamlegt i risottó með mozzarella, svo ekki sé minnst á pizzurnar sem verða vart samar með þessu mauki – nú eða sem grunnur í góða súpu eða hvað annað sem kallar á ómótstæðilegt tómatmauk. Möguleikarnir eru margir og ég er staðráðin í að gera margfalda uppskrift í sumar þegar tómatuppskerutíminn verður í hámarki – það er örugglega frábært að frysta þetta í hæfilegum skömmtum – notagildið er umtalsvert og hollustan ótvíræð.
- 750 gr. tómatar, blandaðir
- 3 hvílauksgeirar, marðir undir hnífsblaði og skornir gróft
- ferskt tímían, nokkrar greinar
- 1 tsk. olífuolía
- 1 msk. salt
- pipar nýmalaður
Hitið ofninn í 180°C.
Setjið tómatana í eldfast mót, skerið þá stærstu í tvennt, en leyfið þeim minni að vera heilum. Bætið söxuðum hvítlauk, fersku tímían og olífuolíu saman við. Kryddið með salti og pipar. Blandið vel saman og setjið í heitann ofninn. Bakað í eina klukkustund.
Kælið tómatana í um það bil 30 mínútur.
Setjið sigti yfir skál, hellið tómötunum í sigtið og merjið þá í gegnum það með sleif.
Hendið hýðinu og því sem eftir verður í sigtinu (í safnhauginn), en setjið fallegt tómatmaukið í flösku eða krukku þar til þið notið það í risotto, á pizzu, súpu eða hvað annað sem ykkur dettur í hug.
Bakvísun: Risotto með ofnbökuðu tómatmauki og mozzarella | Krydd & Krásir
Bakvísun: Risotto með ofnbökuðu tómatmauki og mozzarella | Krydd & Krásir