Mikið sem sumarið getur verið góður tími -tími til að grilla og borða úti í garði. Fiskur hentar vel á grillið og þegar í boði er falleg stórlúðusteik hjá fisksalanum mínum þá stenst ég ekki mátið. Stórgóð steik sem ákaflega fljótlegt er að útbúa og já einfalt líka og um leið hollt – það er vart hægt að biðja um meira – nema ef til vill lengra sumar, fleiri bjartar nætur og að hitastigið sýni oftar 2 stafi í plús eins og verið hefur síðustu viku eða svo 🙂
- 1 kg. stórlúðusteik
Kryddlögur
- 60 ml. teriyaki sósa
- 1 msk. sojasósa
- 2 hvítlauksrif, marin undir hnífsblaði, saxaður smátt og maukaður
- 2 cm engiferrót, rifin smátt
- 1/2 rauður chili-pipar, saxaður mjög smátt
Blandið öllu sem á að fara í kryddlöginn saman. Penslið stórlúðusteikna með kryddleginum og grillið á heitu grilli í 3-5 mínútur á hvorri hlið. Penslið kryddleginum yfir þegar þið snúið henni við.
Gott er að taka afganginn af kryddleginum og hita hann að suðu og bera fram með matnum.
Meðlæti
- sykurbaunir
- eggaldin
- paprika
- gulrætur
- Olía
- salt og pipar
- ferkst kóríander
Skerið grænmetið í bita, fremur jafna að stærð, en hafið gulræturnar í þynnri bitum og baunirnar heilar.
Veltið grænmetinu upp úr olíu og snöggsteikið á heitri wok pönnu í nokkrar mínútur – kryddið með salti og pipar. Stráið fersku gróft söxuðu kóríander yfir réttinn um leið og hann er borinn fram.
Góð hrísgrjón eiga líka vel við þennan rétt – en þetta kvöld bárum við lúðuna einungis fram með wok steiktu grænmetinu – næst bætum við ef til vill smá kolvetnum við og sjóðum góð Jasmin hrísgrjón.