Rabarbara-tíðin er enn í hámarki þó langt sé liðið á sumarið enda vorið svalt og sumarið seint á ferð svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ég sá uppskrift svipaða þessari í Donna Hay tímaritinu sem ég er áskrifandi að á I-Padinum mínum. Talandi um I-Pad – þessi færsla er sú fyrsta sem gerð er á síma og I-Pad – heimilistölvan gerði uppreisn, harði diskurinn gaf sig og tölvan því ónothæf í einhvern tíma – vonandi ekki mjög lengi þó. Upplagt tækifæri til að reyna nýjar aðferðir – blogga á símann og I-Padinn – allar myndir sem þessari færslu fylgja eru teknar á símann og færslan skrifuð á paddann.
En aftur uppskriftinni og það með smá útúrdúr og monti – í dag var förinni heitið í Elliðarárdalinn þar sem rennt var fyrir lax fyrir hádegi, ég er svo heppin að eiga samstarfsfólk sem tilnefndi mig í starfsmanna veiði í ánni og kom heim með 2 væna laxa og það einungis 3 vikum eftir að hafa sett í Maríulaxinn. Upp úr hádegi var síðan slegið upp litlu veisluborði og notið með besta fólkinu mínu. Það er gaman að bjóða upp á nýjungar og þessi uppskrift fékk þann heiður í dag, dásamlega góð og viðeigandi á góðum sunnudegi í lautarferð, úti í garði eða bara heima í eldhúsi.
Rabarabara-mauk
- 300 gr. rabarbari, hreinsaður og skorinn i 0,5 cm. bita
- 1/2 bolli sykur
- fínt rifinn börkur af 1/2 appelsínu
- Safi úr 1 appelsínu
Deigið
- 2 egg
- 1 bolli púðursykur
- 1 bolli AB mjólk eða súrmjólk
- 1/2 bolli bragðlítil olía
- 1 tsk. vanilludropar
- 2 1/2 bolli hveiti
- 2 tsk. lyftiduft
- 1 tsk. sódaduft
- 1 tsk. kanill
- 1 tsk. engiferduft
Ofan á
- 1/2 bolli hveiti
- 2 msk. hrásykur
- 40 gr. smjör, brætt
Byrjið á að baka rabarbarann.
Fyrst þarf að skera hann í u.þ.b. 1 cm. bita, blanda honum saman við sykurinn, appelsínusafann og fínt rifinn börkinn. Þá er allt sett i eldfast mót og bakað við 180°C í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til rabarbarinn er mjúkur. Kælið.
Hrærið þvi næst saman eggjum og sykri, bætið AB mjólkinni, olíu og vanilludropum saman við. Blandið loks þurrefnunum saman við, en gætið þess að hræra deigið ekki mikið eftir að þurrefnin eru komin saman við.
Hrærið saman því sem a að fara ofan á, það er hveiti sykur og bræddu smjöri.
Setjið deigið í möffinsform, u.þ.b. 12 fremur stór eða fleiri lítil.
Setjið rabarbara-maukið ofan á deigið og sáldrið hveitiblöndunni ofan á.
Bakið við 180°C í 20 mín.