Heslihnetur og súkkulaði ásamt rjóma og örlitlu hunangi, maukað saman og smurt á bollur, vöfflur, gott súrdeigsbrauð eða gott kex er hrein dásemd. Á morgun er bolludagur og því upplagt að rifja upp þessa tilraun. Við höfum nokkrum sinnum gert mauk sem þetta, en aldrei skráð og/eða myndað fyrr en nú. Hér er á ferð heiðarleg tilraun til að gera hollari útgáfu af hinu ítalska Nutella sem ku aldeilis ekki teljast til hollustu. Ef valið á súkkulaði og hunangi er vandað þá er þetta ekki bara dásamlega gott heldur líka í hollari kantinum – tja í hóflegu magni í það minnsta 🙂 Sunnudagsdekur sem undantekningalaust fær ákaflega jákvæð viðbrögð – meira að segja eiginmaðurinn nánast hoppar hæð sína…. okí, smá ýkjur hann er nær því 190 cm á hæð og lofthæðin býður ekki upp á slíkt hopp 🙂 Það er svolítil fyrirhöfn í þessu mauki en hún er vel þess virði. Í dag smurðum við þykku lagi á vatnsdeigsbollur, settum ferskt jarðarber í sneiðum og eina msk. af þeyttum rjóma ofan á maukið og útkoman var hreint afbragðs bolludagsbolla. En eins og áður segir er maukið líka hrein dásemd með vöfflum og rjóma eða bara smurt ofan á gott súrdeigsbrauð.
- 200 gr. heslihnetur
- 20 gr. möndlur (má sleppa)
- 300 gr. suðusúkkulaði
- 2,5 dl. rjómi
- 1 msk. hunang
- örlítið salt
- vanilla ef vill
Hitið ofninn í 180°C – setjið heslihnetur og möndlur á pappírsklædda bökunarplötu og ristið í ofninum í um það bil 15 mínútur eða þar til þær fara aðeins að taka lit.
Hitið rjómann við vægan hita,hrærið hunang og örlítið salt saman við. Brytjið súkkulaðið í grófa bita og setjið saman við heitan rjómann -hrærið saman þar til súkkulaðið er alveg bráðið.
Þegar hneturnar eru ristaðar, eftir um það bil 15 mínútur í ofninum, takið þær út og setjið heitar á hreint viskustykki. Pakkið viskustykkinu utan um hneturnar og nuddið vel, þannig að hýðið losni utan af þeim. Það er ekki nauðsynlegt að taka allt hýðið utan af hnetunum, en endilega takið sem allra mest og sérílagi allt sem er laust.
Setjið hneturnar í matvinnsluvél – og maukið í nokkrar mínútur, bætið þá bræddu súkkulaðinu og rjómanum saman við og maukið vel. Setjið í hreinar krukkur og njótið.