Bragðmikil og góð súpa á vel við á þessum árstíma. Dimmt og kalt en oft á tíðum ákaflega fallegt veður. Tíminn sem það er bæði dimmt er maður leggur af stað í vinnuna á morgnana og líka þegar maður kemur heim á daginn. Þá er nú ósköp ljúft að kveikja á kertaljósum, hlusta á notalega tónlist og finna hvernig ilmurinn af þessari dásemdarsúpu fyllir íbúðina notalegri angan.
Fyrir þá sem eru vegan, er hér eitthvað fyrir ykkur – sleppið bara að setja jógúrt ofan á hverja skál þegar súpan er borin fram 🙂
Uppskrift
- 2 msk. olífuolía
- 1 laukur, saxaður fremur smátt
- 4 hvítlauksgeirar, marðir undir hnífsblaði og saxaðir smátt
- 4 cm bútur engifer ferskt, rifið á fínu rifjárni
- 1/2 rautt chili, fræhreinsað og saxað smátt
- 1 msk. garam masala
- 2 tsk. madras karrí
- 2 sætar kartöflur, skrældar og skornar í bita, 2 cm á kant (ca. 700gr)
- 1 l gott grænmetissoð
- 1 dós kókosmjólk, 400ml
- 1 msk. ferskur sítrónusafi
- Salt og nýmalaður svartur pipar
Ofan á
- væn msk. af hreinni góðri jógúrt á hverja skál
- örlítið af grófu söxuðu fersku kóríander eða steinselju
Hitaðu olíuna á góðum súpupotti yfir fremur lágum hita og settu smátt skorinn laukinn út i og látið malla við lágan hita í 10 mín.
Bættu hvítlauk, engineer, chilli út í og hrærðu saman í nokkrar mínútur. Bætið þá kryddunum út í, garam masala og karrý, salt og pipar, hrærið vel saman og leyfið að malla í nokkrar mínútur við lágan hita.
Bætið sætu kartöflunum út í og veltið þeim vel upp úr lauk og kryddblöndunni, svo þær verði þaktar í kryddi. Hellið grænmetissoðinu út í pottinn, hækkið hitann og látið malla í u.þ.b. 15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru alveg meirar.
Takið þá súpuna af hitanum og maukið hana með töfrasprota þar til kartöflurnar eru alveg marðar og súpan silkimjúk.
Bætið kókosmjólkinni og sítrónusafanum út í og hitið að suðu. Smakkið og kryddið með salti og pipar ef þörf er á.
Berið súpuna fram með smá slettu af hreinu jógúrt og gróf saxaðri ferskri steinselju eða kótíander.