Upprunalega kemur þessi uppskriftin úr gömlu Gestgjafablaði sem er dottið í sundur og því tímabært að koma henni á annað form. Eins og svo margar uppskriftir sem fylgja manni lengi þá hefur þessi tekið svolitlum breytingum í gegnum tíðina – við höfum til að mynda skipt smjörlíki út fyrir smjör og minnkað sykurinnihaldið. Tertan er best nýbökuð, en geymist vel í nokkra daga. Hún verður svolítið tignarlegri ef maður notar lítið form það er 22 cm í stað 26 cm – en hvoru tveggja gengur.
Uppskrift
- 250 gr. smjör
- 200 gr. sykur
- 4 egg
- 250 gr. hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- 3-4 epli – helst græn
- kanilsykur eftir smekk
Byrjið á að afhýða, kjarnstinga og skera eplin í þunna báta.
Hrærið smjör og sykur vel saman og bætið eggjunum út í einu í senn og hrærið vel. Hrærið hveit og lyftidufti saman við blönduna.
Hellið heilmingnum af deiginu í smurt, hveiti stráð klemmuform (22 eða 26 cm).
Raðið eplum fallega ofan á og stráið kanilsyktri yfir. Setjið afganginn af deiginu ofan á eplin og sléttið vel úr. Raðið eplum ofan á og stráðið kanilsykri yfir.
Bakið við 150°C í 60-80 mínútur – fer eftir stærð formsins og ofninum sem bakað er í. Stingið prjóni í kökuna til að vera viss hvort hún er bökuð. Látið kökuna kólna í forminu a.m.k. til hálfs áður en hún er tekin úr því.
Þessi er í algjöru uppáhaldi hjá mér, rosalega góð!
Lofa að hringja í þig næst þegar hún verður bökuð elskan mín 🙂