Kom heim í gær svolítið þreytt en glöð eftir nokkra góða daga í Helsinki þar sem við funduðum með kollegum frá Norðurlöndum og sátum ráðstefnu um listir og áheyrendur – gagnlegir og ákaflega ánægjulegir dagar. Helsinki er skemmtileg borg og veðrið lék við okkur, 20°C og sól og hver laus stund nýtt til að taka inn D vítamín. Þó það væri rétt á meðan við gengum á fundarstað og svo heim aftur í dagslok, í klukkustundarpásu í hádeginu eða tveggja tíma hlé í dagslok áður en kvölddagskráin hófst – mikið er sólin dásamleg.
Þegar heim kom tók þokan og rigningin á móti okkur – hitastigið úti rétt um 10°C og Menningarnótt hafin með allri sinni dásamlegu dagskrá. Fór strax í bæinn með fjölskyldunni og þræddi hvern viðburðinn á fætur öðrum og skemmtum við okkur ákaflega vel. Um leið og ég vil þakka fyrir mig og mína velti ég því fyrir mér hvort borgarbúar geri sér grein fyrir hve margir vinna að því að gera þessa hátíð okkar að veruleika – eða hve mikið þau leggja í þá vinnu og hve langir vinnudagar þeirra eru vikurnar fyrir hátíð. Þeim vil ég óska til hamingju með enn eina frábæru hátíðina, sem í ár var toppuð með flottustu flugeldasýningu sem haldin hefur verið í Reykjavík held ég að óhætt sé að fullyrða og um leið og ég segi takk, takk, takk, já þúsund þakkir fyrir mig og mína.
En að uppskriftinn sem á þessum blauta sunnudagsmorgni, daginn eftir Menningarnótt er einföld og góð og á alltaf vel við. Kakan er hæfilega sæt og dásamleg með góðu kaffi, heitu kakó eða kaldri mjólk.
Uppskrift
- 125 gr. smjör
- 100 gr. sykur
- 2 egg
- 250 gr. hveiti
- 1 tsk. vanilla
- 2 tsk. lyftiduft
- 3 bananar velþroskaðir – stappaðir
- 100 gr. suðusúkkulaði grófsaxað
Hrærið smjör og sykur vel saman. Bætið eggjunum saman við einu í senn og hrærið vel. Blandið hveiti og lyftidufti saman og bætið út í ásamt stöppuðum bönunum og vanillu. Hrærið þar til allt hefur blandast vel, þá er súkkulaðinu hrært saman við. Sett í velsmurt og hveitistráð formkökuform. Bakað við 180°C í 50 – 60 mín. Látið kökuna kólna svolítið áður en hún er losuð úr forminu.