Fátt jafnast á við góðan árdegisverð með fjölskyldu og vinum um helgar. Það er svo nærandi að setjast niður með þeim sem manni þykir vænst um og borða góðan mat. Sitja lengi, tala hátt og mikið, borða hægt og njóta þess að vera saman. Heimabakað brauð, ferskt grænmeti, gott álegg og sætur biti ásamt góðum ávaxtasafa og velheitu kaffi eru ómissandi á árdegiverðarborðið okkar. Nú um helgina rataði þetta salat á borðið og vakti mikla lukku. Borið fram með góðu brauði og fersku grænu salati úr garðinum – einfalt og gott.
Uppskrift
- 500 gr. tómatar, konfekt- eða plómutómatar eða blanda af þeim sem eru ferskastir
- 25 – 35 svartar ólífur – skornar til helminga og steinninn tekinn úr
- 100 gr. fetaostur – kubbur skorinn í bita
- 30 blöð af basil saxað gróft.
- 3 hvítlauksgeirar pressaðir
- 2 msk. pestó m/sólþurrkuðum tómötum
- 4 msk. góð ólífuolía
- salt og pipar
Skerið tómata í báta eða í tvennt ef þeir eru litlir, setjið í skál ásamt ólífum, fetaosti og basil. Blandið pestó, olíu og hvítlauk saman og hellið yfir tómatblönduna. Hrærið varlega saman og kryddið með salti og pipar. Látið standa í a.m.k. klukkustund áður en borið fram.