Í sumar höfum við mæðgur gert nokkrar tilraunir með engifer síróp sem gott er að bragðbæta sódavatn með og höfum að eigin mati náð nánast fullkomnun með þessari uppskrift sem hér fer á eftir.
Til margra ára höfum við átt sodastream tæki sem er mjög mikið brúkað og þá einungis fyrir hið hefðbundna sódavatn. Það er hins vegar svo gott að geta bragðbætt vatnið til hátíðarbrigða og dagurinn í dag er einmitt einn af hátíðardögum fjölskyldunnar – unga daman á 16 ára afmæli og bauð nokkrum vinkonum í kvöldverð í gærkvöldi – þar sem þessi drykkur var borinn fram þegar gestirnir komu. Í dag var fjölskyldunni boðið í árdegisverð og aftur var engifer-gosið borið fram og fékk góða dóma.
- 250 gr. engifer
- 1 sítróna
- 1 bolli hrásykur
- 1 bolli vatn
Ég skræla ysta lagið af engiferinu því á þann hátt verður sírópið tærara, sker síðan í grófa bita. Sítrónan er skorin í tvennt og safinn að mestu kreistur úr henni.
Setjið sykur, vatn, engifer, sítrónusafa og sítrónuna í pott. Hitið að suðu og látið malla við vægan hita í u.þ.b. 15 mín. Takið sítrónuna úr pottinum og kreistið safann út henni. Látið standa og kólna i pottinum í að lágmarki 1 klst. Sigtið engiferið frá sírópinu og hellið á flösku, geymið á köldum stað. Það hefur ekki reynt á geymsluþolið hjá okkur en tel að sírópið ætti að geymast í að lágmarki 2 vikur, ef til vill lengur – svo fremi það sé í góðu íláti og kæli.
Sírópið er blandað út í ískalt sódavatn í hlutföllunum 1/6 – 1/10 eftir smekk.
Finnst þetta alveg stórsniðugt ! – Ætla að prófa 🙂
Takk Helena – við mæðgur getum alveg mælt með þessu, eftir nokkrar tilraunir í sumar þá er þessi sú besta og ratað því hingað inn 🙂 Bloggið þitt er líka ákaflega skemmtilegt
Búin að prófa og þetta er alveg stórgott! Notaði 1/2 sítrónu og eina litla en afar sæta appelsínu að auki og þá aðeins minni sykur. Kom virkilega vel út 🙂
Hljómar mjög vel Helena – ég verð að prufa þetta 🙂 TAKK fyrir að deila þessu með mér!