Einn þeirra rétta sem eiginmaðurinn hefur masterað snilldarlega eru bökur í ýmsum útgáfum. Sannarlega ekki eini rétturinn svo því sé til haga haldið, hann eins og aðrir í fjölskyldunni eru vel liðtækir við matargerð og bakstur, en öll eigum við okkur nokkra uppáhaldsrétti og þetta er einn af hans uppáhalds. Þetta er sannkallaður „hvað er til í ísskápnum“ réttur, góður þegar nýta þarf afganga af grænmeti svo sem hálfan blómkálshaus, fjórðung úr papriku, nokkrar soðnar kartöflur, grænkál og hvað annað sem leynist í grænmetisskúffunni. Við notum yfirleitt sömu uppskrift af botni, eftir nokkrar tilraunir með bökubotna hefur þessi reynst okkur best og því endurbirtum við uppskrift frá því í sumar.
Bökubotn
- 150 gr. smjör – kalt og skorið í teninga
- 250 gr. hveiti
- 1/2 tsk. salt
- 1 eggjarauða
- 3-4 msk. ískalt vatn
Hnoðið saman smjöri og hveiti – mér hefur reynst best að vinna deigið í matvinnsluvél. Bætið salti, eggjarauðu og hluta af vatninu saman og hnoðið þar til deigið er komið í góða kúlu. Athugið að ekki er víst að það þurfi allt vatnið og gætið þess að hnoða deigið ekki of mikið. Setjið deigið í skál og geymið í kæli í u.þ.b. klukkustund.
Fletið deigið fremur þunnt út og þekið bökuform með því. Gatið með gaffli. Ekki er nauðsynlegt að forbaka deigið.
Fylling
- 3 þykkar sneiðar af góðu beikoni
- 2-3 vænir stönglar grænkál skorið í grófa bita
- 1 laukur saxaður
- 3 gulrætur, skorin í bita
- 3-4 soðnar kartöflur skornar í bita
- Blómkál – nokkrir kvistir
- 1/2 rauð paprika skorin í bita
- 5 egg og 1 eggjahvíta
- 2 1/2 dl. rjómi
- 100 gr. rifinn ostur
- 2 hvítlauksgeirar
- 1/4 rautt chili saxað mjög smátt
- 1 msk oreganó þurrkað
- salt
- pipar
Steikið beikonið á pönnu, kælið og skerið í bita. Steikið laukinn við vægan hita upp úr feitinni af beikoninu í nokkrar mínútur. Bætið grænmetinu út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur eða þar til gulræturnar fara aðeins að mýkjast. Á meðan grænmetið mallar á pönnunni sláið eggjum og rjóma saman með gaffli eða handþeytara. Kryddið blönduna með hvítlauk, chili, óreganó, salti og pipar.
Raðið grænmetisblöndunni og beikonbitunum yfir bökubotninn. Stráið rifnum osti yfir og hellið loks eggjahrærunni yfir.