Í lok september var ég stödd í London, lét gamlan draum rætast og fór á matreiðlsunámskeið hjá Jamie Oliver. Námskeiðið var haldið á nýlegum stað Jamie Oliver – Recipease við Notting Hill Gate. Staðsetningin er mjög góð og stoppar neðanjarðarlestinn alveg við staðinn. Auk þess að vera kennslueldhús er þarna verslun og veitingastaður með léttar veitingar. Eiginmaðurinn kom með mér á námskeiðið sem bar yfirskriftina Indian Street Foodþ Auk okkar voru 10 aðrir þátttakendur á námskeiðinu, allt bretar utan okkur og ein hjón frá Ástralíu sem hafa búið í Bretlandi sl. ár. Þetta var tveggja tíma námskeið sem endaði á því að við borðuðum öll saman það sem við höfðum eldað, dreyptum á hvítvíni og skemmtum okkur konunglega yfir því hvernig til hafði tekist. Skemmtileg stund með skemmtilegu fólki – ég get svo sannarlega mælt með ævintýri sem þessu næst þegar þú átt leið um London. Jamie Oliver var reyndar ekki sjálfur að kenna, en hún Hanna frá Austuríki sem sá um kennsluna þetta kvöld stóð sannarlega undir væntingum, afslöppuð, skemmtileg og fékk alla til að hlægja strax á fyrstu mínútunum – lagði áherslu á mikilvægi þess að aðlaga uppskriftirnar að okkar smekk. Við fengum ekki skriflegar uppskriftir til að vinna eftir, heldur stóð Hanna í miðju eldhúsinu og spjallaði um matinn sem við vorum að elda, kryddin og annað hráefni sem við notuðum og lagði áherslu á að ástríðuna sem er svo nauðsynleg við eldamennskuna.
Það sem er svo skemmtilegt við námskeið sem þetta er hve mikið maður nýtir það sem maður lærir, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því. Í gærkvöldi var ég til að mynda með matarboð – bauð ákaflega kærri vinkonu og hennar ektamanni í indverkskan mat. Ég gleymdi mér í gleðinni við eldavélina og tók nánast engar myndir. Eiginmaðurinn tók þó mynd af forréttinum sem ég ætla að deila með ykkur í næstu færslu, en í dag tók ég mynd af chutneyinu sem ég útbjó í gær og kláraðist ekki fyrr en í dag. Í gær notuðum við það í forréttinn, bárum það fram með pappadums brauðinu sem var með forréttinum og loks sem meðlæti með aðalréttunum. Þetta chutney er eitt af því sem ég lærði að gera á námskeiðinu hjá Jamie. Döðlu og tamarind chutney er gott með öllum indverkum mat, líkt og mangó chutney. Tamarind skilst mér að þýði indversk daðla, það er súrt á bragðið, hefur nokkurs konar sítrónukeim en líkist svo sannarlega ekki sítrónu að öðru leiti. Tamarind fæst yfirleitt í verslunum sem selja austurlenskan mat, en er stundum hægt að fá í Nóatúni og Hagkaupum.
Uppskrift
- 1 bolli döðlur (þessar venjulegu þurrkuðu sem við þekkjum úr hillum matvöruverslana)
- 6 tsk. tamarind
- 1/2 bolli púðursykur
- 1 bolli vatn
- 1/2 tsk. rautt chili duft
- 1/2 tsk. broddkúmen
- 1 tsk. garam masala
- 1 tsk. salt
Setjið döðlur, tamarind, vatn og sykur í pott og sjóðið við vægan hita í 7 – 8 mínútur. Bætið kryddinu út í og sjóðið áfram í u.þ.b. 10 – 15 mínútur við vægan hita eða þar til maukið er orðið hæfilega þykkt. Berið fram með indverskum mat, t.d. karrý réttum. Líka gott með pappadums brauði.
Bakvísun: Fylltar smjördeigsskálar með indversku tvisti | Krydd & Krásir
Sæl. Hvernig lítur Tamarindið út sem þú keyptir. Er þetta svona klessa með fullt af steinum eða er þetta concentrate? Ég ætlaði nefnilega að búa til svona um daginn og keypti Tamarind í svona kubb. Það er bara svo erfitt að taka nokkrar tsk því þa er svo mikið af steinum
Sæl það sem eg keypti var mauk í lítilli krukku, engir steinar. Þetta fékkst í Hagkaupum. En þú getur örugglega notað hitt, ef þu nærð steinunum úr og mælir bara ca magn.