Meira af smákökum til að njóta með fjölskyldu og vinum á aðventu. Þriðja af sjö og allt vegna þess hve gaman er að baka og enn betra að njóta. Nú er það uppskrift sem við mæðgur, það er ég og unglingurinn, höfum þróað í sameiningu. Hún smakkar og segir já gott en svolítið þurrar og mammman bakar aftur og breytir hlutföllunum örlítið þar til fullkomnun er náð að mati beggja. Skemmtilegt og bragðgott – en til að fyrirbyggja allan misskilning við stöndum ekki í svona vöruþróun alla daga, í ár er þetta eina uppskriftin sem fær þessa meðhöndlun.
- 200 gr smjör
- 1/2 bolli púðursykur
- 1/2 bolli sykur
- 1 egg
- 1 tsk vanilludropar
- 1 1/2 bolli hveiti
- 1 tsk matarsódi
- 1/4 tsk salt
- 2 bollar kókosmjöl
- 150 gr. hvítt súkkulaði smátt saxað
Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan er ljós og létt, bætið eggi og vanilludropum út í og hrærið vel. Þá er þurrefnunum blandað saman við og loks hvítu súkkulaðinu.
Setjið með teskeið (eða lítilli ísskeið) á pappírsklædda bökunarplötu. Bakið við 180° C í 8 – 10 mínútur.