Sítrónukaka þessi er ómótstæðileg og minnir á að vorið er á næsta leiti. Allt er bjartara og þrátt fyrir rigninguna og rokið sem einkennir þennan laugardag þá er dagurinn lengri og sólin sést oftar og lengur. Vorjafndægur á næsta leiti og matar-myndatökurnar einfaldari þegar dagsbirtunnar nýtur og myndirnar verða svo mikið fallegri. Ég vaknaði í morgun, frekar seint, en vel-hvíld eftir góðan nætursvefn. Eins og oft áður um helgar var ég fyrst á fætur og dýrin á heimilinu fögnuðu fótarferð minni á sinn skemmtilega hátt, hundurinn horfði á mig með sínum fallegu augum og dillaði skottinu sem aldrei fyrr og kötturinn nuddaði sér upp við fætur mínar og malaði heil ósköp. Já, þetta er góður dagur og vel til þess fallinn að baka svolítið og fagna lífinu. Fagna og þakka, því ég er svo óendanlega þakklát fyrir svo margt í dag – væmin ég veit, en þakklát!
- 4 egg
- 200 gr. sykur
- 250 gr. hveiti
- 250 gr. smjör, brætt og kælt
- 1 tsk. lyftiduft
- 2 sítrónur, fint rifinn börkur af báðum og safi úr 1/2 (óvaxaðar og helst lífrænar)
Skiljið eggjarauðurnar frá eggjahvítunum. Þeytið eggjarauðurnar og u.þ.b. helmingnum af sykrinum saman í hærivélaskál og í annarri skál eru eggjahvíturnar þeyttar með afganginum af sykrinum. Blandið hveiti, lyftidufti og fínt rifnum sítrónuberkinum (aðeins guli parturin) saman og bætið út í eggjarauðublönduna ásamt bræddu smjörinu og sítrónusafanum. Loks er eggjahvítunum hrært varlega saman við.
Setjið deigið í velsmurt formkökuform, okkar form er 28 cm. Bakið við 180°C í 35 – 40 mínútur.